Nöldrið | 11. ágúst 2017 - kl. 09:36
Ágústnöldur

Kæru bæjarstarfsmenn, þið sem annist umhverfismálin hér í Blönduósbæ. Hvers vegna er kerflinum, þessari skaðræðisplöntu, leyft að leggja undir sig bæinn okkar. Hún vex um allan bæ, fyrir innan og utan á, uppi á brekkum og niður í fjöru og eirir engu. Hún æðir yfir og drepur allan annan gróður þar sem hún skríður fram. Hún meira að segja leggur undir sig lúpínubreiðurnar. Engin skepna lítur við þessari plöntu, hvorki fuglar né ferfætlingar.

Kerfillinn mun upphaflega hafa komið hingað til lands sem skrautplanta í garða og ekki er því að neita að hún er falleg í hæfilegu magni en allir sem rækta garða vita hvað hvimleiðar þær plöntur eru sem sá sér út og suður og æða um allan garðinn. Kerfillinn vill meira en það. Hann leggur undir sig heilu bæjarfélögin og fjallshlíðarnar ef út í það er farið og vill engin tré eða aðrar jurtir nálægt sér. Í fréttum Ríkisútvarpsins á dögunum var fjallar um kerfilinn meðfram vegum í Fljótum og hvað væri til ráða til að hefta útbreiðslu hans. Þar telja menn að fræ plöntunnar hafi borist með sláttutækjum sem vegagerðin notar þegar starfsmenn slá meðfram vegunum og er það mjög sennileg skýring. Það er vitað að í mörgum bæjarfélögum er hafin herferð til að hefta útbreiðslu kerfilsins og bæði notað til þess eitur og reynt að slá plöntuna áður en hún myndar fræ.

Ég veit að ég skrifa hér fyrir hönd margra bæjarbúa þegar ég biðla til ráðamanna hér í bæ að hefjast strax handa við að reyna að losa okkur við þessa leiðinda jurt. Bæjarstarfsmenn hljóta líka að gera sér grein  fyrir því að þess verður ekki langt að bíða að hún nemi land í Hrútey (sé hún ekki þegar komin þangað) og það er eitthvað sem ekki má gerast. Þá er búið með berjaling og annan lággróður í eyjunni og  þess verður ekki langt að bíða að gæsin forðaði sér þaðan því greinilega er hún er ekki hrifin af plöntunni enda ekkert æti að hafa inni í þessum villigróðri og erfitt með hreiðurgerð.

Fróðlegt verður að vita hvað kemur út úr samræðum sveitastjórna um sameiningu alls Norðurlands  vestra. Ráðamenn í Húnaþingi vestra hafa þegar blásið á tillögina og telja svona sameiningu  ótímabæra. Hugarfar íbúa Norðurlands vestra hefur mikið breyst ef samþykkt verður að hefja alvöru viðræður. Ekki er ólíklegt að í komandi sveitastjórnarkosningum næsta vor verði um þessar hugmyndir rætt og kannski leitað álits íbúa þessara svæða í kjörklefanum. Í undanfara þeirra kosninga verður forvitnilegt að heyra um stöðu mála í sölunni á Félagsheimilinu og um hótel- og blokkarbyggingar í tengslum við það. Einnig hvernig gangi að afla fjármagns, já og rafmagns, til álversins á Hafursstöðum og svo gagnaversvinnan öll síðastliðinn áratug. Líklega er um áratugur síðan fréttir komu fyrst í blöðunum um að bygging á því væri að hefjast hér í bæ. Við bíðum spennt eftir framboðsfundum vetrarins.

Ekki vil ég vera í hópi þeirra sem finna þessu sumri allt til foráttu. Það hefur verið alveg þokkalagt, kannski full lítil sól, en oft hlýtt og oft höfum við lifað verri sumur. Við íbúar beggja vegna Blöndu viljum sjá aftur hafist handa við Blöndubrúna og að framkvæmdum þar verði að fullu lokið og að hringtorgið verði stækkað eins og lofað var. Umferð í gegnum bæinn hefur verið gríðarleg í sumar og eykst sífellt.  Það hlýtur að  vera þörf á að stækka bílastæðin við N-1/ Nesti og jafnvel stækka skálann sjálfan en þar er alltaf fullt út úr dyrum. Svo er að heyra að verið hafi góð aðsókn að veitinga- og gististöðum hér í bænum í sumar og er það vel.  Mannfagnaðir í bænum í sumar hafa gengið vel og sannarlega lífgað upp á mannlífið. Má þar nefna Prjónagleði Jóhönnu Pálma, Smábæjaleikana og svo auðvitað Húnavökuna sem var frábær að vanda. Kærar þakkir fyrir mig og mína.

Nöldri kveður með von um gott og gjöfult haust.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga