Fréttir | 07. september 2017 - kl. 15:56
Nýr kastali rís á skólalóð Blönduskóla

Í tilkynningu frá Þórhöllu Guðbjartsdóttur, skólastjóra Blönduskóla, kemur fram að framkvæmdir við byggingu kastala á skólalóðinni hefjist eftir helgi. Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar taki allt að fimm vikur og verður framkvæmdasvæðið girt af á framkvæmdatímanum. Nýi kastalinn verður reistur á skólalóðinni rétt við ærslabelginn sem kom í sumar.

Framkvæmdaáætlun er nokkurn veginn á þennan hátt:

Jarðvegsskipti þar sem sett er frostfrítt efni í stað blandaðs jarðvegar.

Uppsetning, þar sem kastalinn er settur saman og stilltur af. Að því loknu verður jarðvegur settur í rétta hæð undir fallvarnarefni. Gengið verður frá kanti í kringum svæðið sem fallvörnin er á og settar a.m.k. tvær helluraðir til að styðja við kantinn.

Frágangur þar sem hellur verða lagðar á milli malbiks og hellna við sparkvöll til að draga úr því að möl berist inná svæðið. Þá þarf að þökuleggja hinum megin við malbikið að ærslabelgnum og ganga frá niðurfalli í lægsta punkti við gangstétt/götu.

Verktími er sem fyrr segir 3-5 vikur. Vélavinna tekur 3-5 daga og verður reynt að lágmarka vinnu í frímínútum. 

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga