Ljósm: GÞJ
Ljósm: GÞJ
Ljósm: GÞJ
Ljósm: GÞJ
Ljósm: GÞJ
Ljósm: GÞJ
Ljósm: GÞJ
Ljósm: GÞJ
Ljósm: GÞJ
Ljósm: GÞJ
Pistlar | 08. september 2017 - kl. 06:47
Stökuspjall: Hann gaf minna en við!  
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Haustið er mörgum uppskerutími meðan aðrir hefja nýjan áfanga sem lýkur stundum næsta vor, ungir fara til skóla síns og taka til óspilltra mála eftir sumarferðir eða skorpuvinnu milli námsáfanga. Réttardagar fylgja líka haustinu og í einni af mörgum réttarvísum er nefndur Hjörleifur hinn markfróði Sigfússon sem var um árabil í vinnumennsku á sauðríkum bæjum í Blöndudal:

Þar er sparkað, kjaftað, kýtt
karlar þjarka um hross og skjátur.
Þar er slarkað, þjórað, spýtt.
Þá er Marka-Leifi kátur.

Svo fær orðsnjall Víðdælingur orðið:

Við hrepptum harðan vetur
heima í minni sveit.
Hey við höfðum lítil
og heldur knappt um beit.
En Jói karlinn kúnum
samt kvölds og morgna gaf.
Ég oftast sá um ærnar,
ég átti hund og staf.
Húnavatns í sýslu
við höfðum þennan sið.
En Drottinn hirti hrossin,
og hann gaf minna en við.

Annan spaugara og organista áttu Húnvetningar í Húsa-Birni sem setti upp armæðusvip að búmanna hætti þegar hann rímaði skattframtal sitt. Þessar taldi hann tekjurnar:

Ekkert folald, enginn kálfur
engin veiðiföng.
Konan geld, ég gagnslaus sjálfur
guggnaður við söng.

Nú leikur organistinn Pálína Fanney á orgel Hvammstangakirkju og lék einnig við sögumessuna út á Tjörn fyrir fáum vikum, en myndin með stökuspjallinu er frá þeirri athöfn.

 

Nafn höfundur að síðustu vísunni er týnt en versið snjalla er litað með afsakandi hógværð:  

Ævin er týnd við töf og kák
tækifærin að baki
síðustu leikir í lífsins skák

leiknir í tímahraki. 

Vísað er til:
Stafnsréttavísa Rósbergs: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24880 
Bjarni frá Gröf: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24778 
Björn G. Björnsson organisti: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=5167 

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga