Fréttir | 10. september 2017 - kl. 12:10
Hvatning um fræsöfnun

Á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 2017 fjallaði ein ályktun fundarins um að gert yrði sérstakt átak nú á haustdögum í fræsöfnun á birkifræi. Stjórn félagsins hvetur öll aðildarfélög til þess að efna til átaks og nýta haustdaga framundan og leggja kannski ekki síst áherslu á Dag íslenskrar náttúru, þann 16. september n.k. Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélags Austur-Húnavatnssýslu vill koma þessu á framfæri og má skila fræjum til hans á Heiðarbraut 14 eftir 26. september.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Skógræktina, Landgræðsluna, Yrkjusjóð, Endurvinnsluna og fleiri aðila. Mikið fræ er á birki víða um land og tækifæri til að safna miklu magni eftir þetta hlýja sumar. Fræinu mætti dreifa á skógræktarsvæði eða senda til Hekluskógaverkefnisins, eða sambærilegra verkefna í öðrum landshlutum, sem gætu séð um að dreifa fræinu á hentug lönd. Endurvinnslan er klár í móttöku á fræi og Hekluskógar, Landgræðslan og Skógræktin gætu séð um að dreifa fræi á hentug svæði í öllum landshlutum.

Söfnun og sáning á birkifræi

Í stuttu máli

  • Best er að safna birkifræi frá lokum ágúst og fram í byrjun október. Eða svo lengi sem frækönglar eru á birkitrjánum.
  • Að nota ílát sem binda má framan á sig, svo báðar hendur séu lausar í fræsöfnunina eða nota stóra höldupoka.
  • Að velja falleg tré til að safna af.
  • Annað hvort má þurrka fræið í kaldri geymslu og geyma það svo þurrt í kæliskáp, eða sá því beint fljótlega eftir að því hefur verið safnað.
  • Að velja sáningarstaði á hálfgrónu landi, t.d. vaxna þunnu mosalagi eða þar sem gróðurhula hefur verið skafin af. Ekki sá fræinu beint í lausasand, ógróna mela eða vikra, né mjög grösugt eða land vaxið þykkum mosa.
  • Ekki skal hylja fræ með jarðvegi, en gott er að þjappa því niður í svörðinn t.d. með því að stíga það niður. Einnig má hylja sáningarsvæði með þunnu lagi af heyji eða húsdýraáburði.
  • Gott er að blanda fræinu saman við mold úr gömlum skógum t.d. birki-, furu- eða greniskógum til að fá svepprótina með fræinu. En svepprætur eru nauðsynlegar trjáplöntum til að ná vatni og næringu úr jarðvegi.
  • Hvar er hægt að afhenda birkifræ. Á Reykjavíkursvæðinu tekur Endurvinnslan ehf. á móti fræjum í endurvinnslustöðvum að Knarrarvogi 4, Dalvegi 28 og Hraunbæ 123. Skógræktin og Landgræðslan taka einnig við fræi í öllum starfsstöðvum um land allt.
Höf. asgeirh

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga