Fréttir | 11. september 2017 - kl. 16:09
Lýðheilsugöngur á miðvikudögum

Ferðafélag Íslands stendur fyrir lýðheilsugöngum alla miðvikudaga í september, um allt land. Göngurnar eru hluti af afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Göngurnar hefjast klukkan 18:00. Næstkomandi miðvikudag verður t.d. gengið um Hrútey og er göngustjóri Berglind Björnsdóttir. Um er að ræða fjölskylduvænar göngur sem taka u.þ.b. 60-90 mínútur og er tilgangurinn með verkefninu að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

Þá má geta þess að á miðvikudaginn verður gengið að Snældukletti við Hvammstanga og er upphafsstaður göngunnar við Kirkjuhvammskirkju. Göngustjóri verður Magnús Eðvaldsson.

Upplýsingar um göngustaði og gönguleiðir má finna á heimasíðu verkefnisins www.fi.is/lydheilsa. Þar gefst almenningi einnig kostur á að skrá sig í lukkupott sem dregið verður úr í október og geta heppnir göngugarpar hreppt glæsilega vinninga.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga