Fréttir | 12. september 2017 - kl. 13:10
MAST fellur frá ákvörðun sinni

Feykir.is segir frá því að Matvælastofnun hafi fallið frá kröfu sinni um að á fjórða hundrað fjár sem fór yfir sjúkdómavarnarlínu Blöndu í sumar yrði slátrað í haust. Fram kemur að fimmtán bændur í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði hafi farið fram lögbann hjá sýslumanninum á Norðurlandi vestra á ákvörðun Matvælastofnunar. Samkvæmt skilgreiningu hennar er Blanda í flokki varnarlína vegna sauðfjársjúkdóma og er því ekki heimilt að flytja fé þar yfir. Varnir við ána eru þó litlar og eftir að áin var virkjuð er hún þurr á stórum kafla og því greiðfært fyrir fé þar yfir.

Haft er eftir Inga Tryggvasyni, lögfræðingi bændanna, að krafa þeirra byggist aðallega á því að engin rök væru til þess að ákveða í skyndi að Blanda skuli vera varnarlína þegar lítið sem ekkert vatn er í henni þann hluta ársins sem hún er ekki á yfirfalli, en þannig hafi það verið frá því að Blanda var virkjuð. „Því væri ekki hægt að líta svo á að umrætt sauðfé hefði farið yfir varnarlínu og þá væri það örugglega þannig að fjöldi fjár hefði farið fram og til baka yfir farveg Blöndu í sumar og því samgangur sauðfjár á svæðinu töluverður“, segir Ingi í samtali við Feyki.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga