Fréttir | 13. september 2017 - kl. 13:52
Stóðsmölun í Laxárdal og stóðréttir í Skrapatungurétt

Um helgina fer fram hin árlega stóðsmölun á Laxárdal og stóðréttir í Skrapatungurétt. Fjallkóngur verður Skarphéðinn Einarsson, skólastjóri Tónlistarskóla Austur-Húnvetninga, og sér hann um leiðsögn ferðamanna í stóðsmöluninni. Allir geta tekið þátt í reiðinni hvort sem fólk kemur með sinn eigin hest eða leigir af heimamönnum og tilvalið er að mæta í réttirnar og taka þátt í dagskránni þar.

Stóðsmölunin hefst laugardaginn 16. september og verður lagt af stað klukkan 9:30 frá Strjúgsstöðum í Langadal og frá Gautsdal. Áning verður í Kirkjuskarði um hádegi og verður þar hægt að kaupa kjötsúpu og fleiri veitingar. Klukkan 14:00 verður riðið af stað frá Kirkjuskarði til Skrapatunguréttar þar sem dagskrá hefst klukkan 16:00. Þar verður söngur, gleði og gaman, uppboð á hrossum og baráttan um Skrapatunguréttarbikarinn. Stóðréttarball með Greifunum verður í Félagsheimilinu á Blönduósi klukkan 23:00 og er aldurstakmark 18 ár. Stóðréttirnar hefjast svo í Skrapatungurétt klukkan 11:00 sunnudagsmorguninn 17. september.

Viðburðurinn er með breyttu sniði þetta árið þar sem eingöngu er smalað hrossum sem þýðir að fyrr verður komið í Skrapatungurétt. Nánar má kynna sér viðburðinn á Facebook síðu hans.

Handverksmarkaður - Súpukvöld - Dansleikur
Handverksmarkaður verður í Félagsheimilinu á Blönduósi á föstudaginn, 15. september, frá klukkan 17:30-21:30. Hægt er að leigja borð á 1.500 krónur undir vörur. Dagurinn í dag er síðasti dagurinn sem hægt er að fá borð og eru áhugasamir vinsamlegast beðnir um að hafa samband í gegnum netfangið hafagaman15@gmail.com eða í síma 663 4789 (Kristín.

Súpukvöld verður í Félagsheimilinu föstudagskvöldið 15. september klukkan 20:00. Gúllassúpa með brauði á litlar 1.500 krónur á mann og er happdrættismiði innifalinn. Þátttöku þarf að tilkynna eigi síðar en í dag á netfangið hafagaman15@gmail.com eða í síma 663 4789 (Kristín). Húsið verður opið til klukkan 01:00.

Stóðréttarball verður í Félagsheimilinu laugardagskvöldið 16. september. Hljómsveitin Greifarnir ætla að halda uppi stuðinu fram eftir nóttu. Húsið opnar klukkan 23:00 og er aldurstakmark 18 ára. Miðaverð er 3.500 krónur.

Þessa helgina munu einstaklingar sem koma að þessum viðburði á einn eða annan hátt taka yfir aðgang Hestafrétta á Snapchat. Endilega addið og fylgist með skemmtuninni !

Snapchat reikningur Hestafrétta : hestafrettir

 

Dagskrá:

Föstudagurinn 15. september:

17:00 Gjaldfrjáls nátthagi fyrir hross að Strjúgsstöðum, norðan afleggjara, við veginn.

17:30 – 21.30 Handverksmarkaður í Félagsheimilinu á Blönduósi.

20:00 Súpukvöld í Félagsheimilinu á Blönduósi. Verð kr. 1.500,- innifalinn happdrættismiði. Pantanir þurfa að berast á hafagaman15@gmail.com fyrir miðvikudaginn 13.september.

Laugardagur 16. september:

09:30 Lagt af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal.

09:30 Lagt af stað frá Gautsdal.

12:00 Áning í Kirkjuskarði. Kjötsúpa og fleiri veitingar til sölu – ATH enginn posi á staðnum.

14.00 Riðið af stað frá Kirkjuskarði.

16.00 Dagskrá hefst í Skrapatungurétt

- Uppboð á hrossum

- Baráttan um Skrapatunguréttarbikarinn

- Söngur- gleði og gaman

- Næturhólf fyrir hross í boði fyrir þá sem vilja

23:00 Stóðréttarball með Greifunum í Félagsheimilinu á Blönduósi. Opinn bar – Aldurstakmark 18 ár.

Sunnudagur 17. september

11:00 Stóðréttir í Skrapatungurétt. Veitingasala í réttarskúr á meðan réttarstörfum stendur.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga