Frá Blönduósi
Frá Blönduósi
Fréttir | Sameining A-Hún | 13. september 2017 - kl. 14:34
Tilnefndir í samstarfsnefnd um sameiningu

Valgarður Hilmarsson og Hörður Ríkharðsson hafa verið tilnefndir af sveitarstjórn Blönduósbæjar í samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Oddný María Gunnarsdóttir og Anna Margrét Jónsdóttir hafa verið tilnefndar til vara. Sveitarstjórn fagnar því að sameiningarferli sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu sé hafi.

Sveitarstjórnir í Austur-Húnavatnssýslu héldu sameiginlegan fund í Fellsborg á Skagaströnd 24. ágúst síðastliðinn þar sem oddvitar sveitarstjórna í Skagabyggð, Húnavatnshreppi, Skagaströnd og Blönduósi gerðu grein fyrir afstöðu sinni og sinna sveitarstjórna. Samþykkt var ályktun þar sem því var beint til sveitarstjórna að þær tækju afstöðu til þess, hver fyrir sig, hvort þær vildu hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu og tilnefni jafnframt fulltrúa í sameiningarnefnd ef vilji væri til að hefja það ferli.

Daginn eftir sendi sveitarstjórn Húnavatnshrepps frá sér samþykkt sem sagir að samstarf sveitarfélaganna sé mikið, m.a. í byggðasamlögum, um rekstur stórra málaflokka. Það samstarf sé með ágætum en óneitanlega þyngra í vöfum en ef um eitt sameinað sveitarfélag væri að ræða. Sveitarstjórnin telur því eðlilegast að sveitarfélögin fjögur kanni möguleika á sameiningu.

Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri Skagastrandar, hefur sagt í fréttum að hann telji rétt að láta reyna á sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Hann telur þó ekki raunhæft að sameina öll sveitarfélögin á Norðurlandi vestra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga