Fréttir | 10. október 2017 - kl. 11:08
Fyrirkomulag rjúpnaveiða í Húnaþingi vestra

Fyrirkomulag rjúpnaveiða í eignarlöndum Húnaþings vestra á komandi veiðitímabili hefur verið ákveðið og birt á vef sveitarfélagsins. Þess er vænst að veiðimenn virði fyrirkomulagið og viðurkenni að það sé sanngjarnt og eðlilegt að greiða hóflegt gjald fyrir aðgang að takmörkuðum gæðum eins og rjúpnaveiði. Verð fyrir hvert leyfi er 9.000 krónur á dag.

Fyrirkomulag rjúpnaveiða í eignarlöndum Húnaþings vestra verður með eftirfarandi hætti haustið 2017:

Veiðimönnum með gilt veiðikort útgefið af Veiðistjórnunarsviði Umhverfisstofnunar stendur til boða að kaupa sérstakt veiðileyfi útgefið af Húnaþingi vestra er veitir þeim einum heimild til rjúpnaveiða í eignarlöndum sveitarfélagsins. Um verður að ræða tvennskonar leyfi sem gefin verða út á jafnmörg svæði.

1. Svæðin eru:  
a) Eignarhlutur Húnaþings vestra í Víðidalstunguheiði ásamt jörðunum  Króki, Stóru-Hlíð, Stóra-Hvarfi  og eignarhlut Húnaþings vestra í Öxnatungu. 
b) Eignarhlutur Húnaþings vestra í Arnarvatnsheiði og Tvídægru.

2. Hvert veiðileyfi sem selt er gildir á veiðitíma rjúpu sem umhverfisráðuneytið hefur gefið út vegna ársins 2016 og veitir einungis skráðum handhafa þess heimild til veiða á umræddu svæði á áðurnefndum tíma. Um er að ræða sölu á dagsleyfum.

3. Veiðileyfin verða til sölu hjá Ferðaþjónustunni Dæli. Verð fyrir hvert leyfi er kr. 9.000 á dag.

4. Fjöldi veiðimanna á veiðisvæðin er takmarkaður við 4 byssur á hverju svæði á dag og tekið skal fram að leyfishafar hafa einir heimild til veiða á umræddum svæðum.   Veiðimenn eru hvattir til að tilkynna veiðar án leyfis til eftirlitsmanns.

5. Fjallskiladeildir í Húnaþingi vestra hafa heimild til að loka vegum og vegslóðum sem eru á forræði sveitarfélagsins án fyrirvara ef talið er að þeir liggi undir skemmdum vegna tíðarfars og umferðar. Þannig veitir veiðileyfið ekki tryggingu fyrir því að ávallt sé hægt að aka að veiðisvæði.

Þess er vænst að veiðimenn virði það fyrirkomulag sem hér er kynnt og viðurkenni að það sé sanngjarnt og eðlilegt að greiða hóflegt gjald fyrir aðgang að takmörkuðum gæðum eins og rjúpnaveiði.

Sveitarstjóri

Rjúpnaveiði í Víðidal

Rjúpnaveiði í löndum Syðra-Kolugils, Hrappsstaða, Gafls og Lækjarkots í Víðidal verður eins og undanfarin haust takmörkuð.  

Fyrstu tvær helgarnar eru seld leyfi í eignarland Húnaþings vestra í Gafli sunnan Gaflsgjár, og Lækjarkots,  4 byssur á dag.

Seinni tvær helgarnar er seld leyfi í löndum Syðra-Kolugils, Hrappsstaða, Gafls og Lækjarkots, 6 byssur á dag.

Verð fyrir hvert leyfi er kr. 9.000 á dag.  Veiðileyfi verða eingöngu seld hjá Ferðaþjónustunni Dæli sími 451 2566. Þar verður líka tilboð á gistingu á rjúpnaveiðitímanum. Netfangið er daeli@daeli.is. Allar upplýsingar um rjúpnaveiðar á þessu svæði eru veittar í Dæli.

Landeigendur

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga