Nöldrið | 11. október 2017 - kl. 21:01
Októbernöldur

Ærslabelgurinn sem settur var upp á skólalóðinni við Blönduskóla í sumar hefur notið mikilla vinsælda hjá börnum bæjarins og ungum gestum sem hafa heimsótt okkur í sumar. Nú hefur bæst við myndarlegur kastali  rétt hjá belgnum vinsæla og á hann án efa líka eftir að verða vinsæll hjá ungviðinu næsta sumar. Kastali þessi er með þeim stærri sem ég hef séð á/eða við svona opna leikvelli og það vert að þakka þeim sem þarna ráða ferð um kaup á þessum tækjum og vona að vel verði um þau gengið og eftirlit með þeim gott.

Til hamingju með nýjan vef Blönduósbær. Það er ekki vafi að vel upplýsandi vefurá netinu er til mikils sóma fyrir hvert bæjarfélag og kemur til með að verða mikið notaður, sé hann með aðgengilegar upplýsingar. En svona vefi þarf að uppfæra reglulega og einhverjar hreyfingar að vera á þeim, nýjar upplýsingar, myndir o.s.frv. Ég skoðaði nokkra vefi hérna á Húnahorninu undir „Tenglar“ og þar mætti heldur betur taka til, en margir þeirra eru hreint ekki inni lengur og á öðrum hafa engar upplýsingar verið settar inn í mörg ár.  

Það var ekki laust við að maður væri farinn að hlakka svolítið til sveitastjórnakosninganna í vor. Það er allltaf tilbreyting í bæjarlífinu þegar ólíklegasta fólk fer að hittast á síðkvöldum til að koma saman frambærilegum listum og alltaf láta einhverjir tilleiðast að vera í framboði vegna fjölda áskorana. Þá þurfti nú ríkisstjórn landsins að taka sig til og slíta stjórnarsamstafinu og ráðamenn að troða alþingiskosningum upp á þjóðina í lok þessa mánaðar. Mikill meirihluti þjóðarinnar hefur engan áhuga á alþingiskosningum á hverju ári. Fyrir utan kostnaðinn  sem fylgir þessu fer að verða leiðigjarnt að þurfa að kjósa á árs eða hálfsárs fresti. Og er ekki hægt að skikka þetta fólk sem þiggur laun frá þjóðinni að sitja þau fjögur ár sem það var ráðið til og vinna eins og manneskjur. Í september s.l. birtist í Bændablaðinu áskorun til Alþingis frá „Þingeyrarakademíunni“ sem er hópur manna og kvenna á Þingeyri sem stundar morgunsund og heita pottinn þar í bæ. Í þessu ávarpi skora þau á alþingismenn að hætta að rífast og snúa sér að vandamálum þeim sem þau eru kosin til að leysa í þjóðarþágu. Gefa símunum sínum frí  meðan þau sitja í þingsal og forgangsraða í fjárveitingum því þeir sem nóg hafi þurfi ekki meira og gera meira en bara hugsa til þeirra sem minna mega sín. Þá stingur þetta ágæta baðfólk á Vestfjörðum upp á því að þingheimur taki lagið einstaka sinnum t.d. Öxar við ána eða Fyrr var oft í koti kátt því Vestfirðingurinn Jón Sigurðsson fylgist með þeim daglega. En mynd af honum hangir á vegg í þingsalnum.

Það er undarlegt að þurft hafi erlenda stórverslun til landsins svo íslendingar gætu farið að kaupa  frambærilegt lambakjöt og jafnvel lambahakk sem nánast hafa ekki sést í matvöruverslunum.  Bændur hafa verið skammaðir fyrir allt of hátt verð á lambakjöti svo lengi sem ég man eftir, en er ekki tími til kominn að beina sjónum að afurðastöðvunum og þeim sem kaupa kjötið af bændunum og senda það í búðirnar frosið og ósnyrt eins og það hefur verið gert að mér skylst síðan farið var að selja lambakjöt í verslunum. Nútímafólk gerir meiri kröfur til sölu matvæla en gerðar voru fyrir 50 og 70 árum og lætur ekki bjóða sér lengur svona vöru. Allra síst þegar nóg framboð er á öðrum og ódýrari kjötvörum. Við vitum öll að fátt er betra en íslenska lambakjötið og það á skilið meiri virðingu en það nýtur nú um stundir nema ef vera skyldi í útlendu verslanakeðjunni Costco sem gerir því hátt undir höfði. Fyrir nokkrum dögum keypti ég öskju af íslenskum piccolotómötum í búðinni okkar. Innaná lokinu á öskjunni eru upplýsingar um framleiðendur þessara tómata sem koma frá Friðheimum. Þar er meira að segja mynd af framleiðendunum sem heita Knútur og Helena. Þarna upplýsa þau neytandann um tilurð þessara tómata og segja þá ræktaða á umhverfisvænan hátt þar sem græn orka, tært vatn og lífrænar varnir gera þá ferska og heilsusamlega. Það er gaman að kaupa og neyta svona afurða og tómatarnir stóðust prófið, þeir voru ótrúlega sætir og bragðmiklir eins og segir í upplýsingunum frá framleiðendunum. Eitthvað í þessa átt vildi ég sjá farið með lambakjötið. Að ég vissi hvaðan það kæmi og þá vaknar sú spurning  af hverju í ósköpunum fáum við getum ekki keypt  vörur frá SAH Afurðum í búðinni okkar nema að mjög litlu leyti frekar en kjötvörurnar frá Kaupseli, sem ég gef ekki háa einkunn.

Ég má til með að óska Bólstaðarhlíðarkórnum til hamingju með árangurinn í kórakeppninni sem þeir taka þátt í þar sem þeir stóðu sig með mikilli prýði. Og ekki brugðust þeir okkur strákarnir okkar með sínu ótrúlega afreki að koma þessari litlu þjóð á HM í fótbolta.

Legg inn góðar óskir um mildan vetur og kveð að sinni.

Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga