Til Svartár fellur Hlíðará ofan úr Skörðum. Ljósm: stikill.123.is
Til Svartár fellur Hlíðará ofan úr Skörðum. Ljósm: stikill.123.is
Pistlar | 12. október 2017 - kl. 10:57
Stökuspjall: Sveitin fékk annað yfirbragð
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Frétt barst um nýtt nóbelsskáld í Bretaveldi. Í Japan er skáldið fætt en flutti ungt með fjölskyldu sinni til Englands. Kyrrlát lýsing hans af önnum og metnaði brytans í skáldsögunni Dreggjar dagsins er seiðandi lestur. Hollusta við eiganda herragarðsins og gamla siði virðist færa sögunni rósemi en undir kraumar óróleiki samtímans. Kazuo Ishiguro fléttar saman nokkra þætti í sögu sína eins og góðskáldin gera að jafnaði.

Ýmsar sjónvarpsstöðvar höfum við um að velja hér á eyjunni hvítu, ARTE heitir ein, stöð sem miðlar utan úr Evrópu bæði fréttum, fróðleik og listum og þar birtist ástralskur píanóleikari um síðustu helgi, hann Davíð Helfgott, síkvikur og hlaupandi, heilsar helst öllum og knúsar sem á vegi hans verða. Konan hans þolinmóða, hún Gillian, lýsir honum þannig: Hann er eins og barn sem kann engar reglur. Minnisstætt er atriði þar sem þau stóðu aftast í röð á flugvellinum, hún eins og klettur með hönd á töskunum meðan listamaðurinn hljóp meðfram röðinni til að heilsa og faðma samferðamennina.

Aðrir tónlistarmenn, og kunnuglegri, birtust á sunnudaginn þegar kórinn okkar, gamli og góði, kom í beina útsendingu í sjónvarpssal og söng eins og englar, vel að merkja englar með karlaraddir og útskrifuðust til meiri söngs og nýrrar keppni. Þökk sé ykkur, söngstjóri, formaður og dugmiklir kórfélagar sem ekki láta sitt eftir liggja þegar róið er vel í fyrirrúminu.

Einn söngstjóri kvaddi annan með ljóði í þessum sama kór, fyrir hartnær 60 árum, ekki svo langur tími í aldri kórs sem  kominn er nokkuð á tíræðisaldur.

Við mættumst í söng er morgunsins fyrsti þeyr
fór mjúklega um heimafjöll.
Og sveitin fékk annað yfirbragð þenna dag
var orðin að tónahöll.  

Jónas söngstjóri átti drauma um gengi æskunnar og kórinn hans – og okkar – hefur átt því láni að fagna að ungir menn koma þar til liðs:

Langt á bak við húmsins haf
hillir sólskinslönd.
Eitt sinn dreymdi æsku mína
einnig þessa strönd.

Í síðustu viku lést fermingarsystir Jónasar en náði að lifa 101 ár. Lára Gunnarsdóttir hét sú góða kona, kennd við Botnastaði í Svartárdal, en flutti ung stúlka til borgarinnar úr sveitinni sinni, tók þátt í lífinu í vaxandi borg, síðast sem leikskólastjóri. Síðasta áratug bjó hún í Seljahlíð og gat notið þess að fá þangað fólk sitt eða gamla sveitunga. Hugur og sögur teygðust þá fljótt norður. Lára eignaðist tvö börn og ól upp dótturson sinn, söngvarann og lagahöfundinn Stefán Hilmarsson. Hann var skírður eftir Stefáni Sveinssyni, sem stundum var kenndur við Æsustaði en rak fornbókaverslun við Snorrabraut eftir að hann flutti með fjölskyldu sína til Reykjavíkur. Stefán var frændi Láru og hjálparhella fjölskyldunnar á Botnastöðum um árabil þegar heimilisfaðirinn féll frá á miðjum aldri. 

Stefán Sveinsson orti grallaralegar vísur á yngri árum sínum heima í dölunum til að skemmta sveitungum sínum og þeir komu við hjá honum í Reykjavíkurferðum sínum þar sem hann, vinnulúinn öldungur, seldi bækur sínar við aðstæður sem voru framandi sveitamönnum, í umferðargný og borgarþys. Stefán orti afmælisvísur eins og Jón í Gautsdal:

Ánægjan mér aldrei hvarf
ást og gleði þjóna,
en eftir fimmtíu ára starf
á ég bara hann Skjóna.  

Stefán var í flokki vegagerðarmanna þegar lagður var bílvegur yfir Vatnsskarð og Víðivörðuás. Þá var á Gili kaupakona af Ströndum, sem fékk þetta fallega kveðjuvers:

Ég yrki ljóð fyrir enga borgun
illar fréttir berast enn
Guðný fór frá Gili í morgun
gráta flestir vegamenn.

Og Stefán átti alvörutón:

Þrautahrelling þyngir spor
þjakað ellin getur
um andans velli er eilíft vor
enginn fellivetur.  

Öðlingskonuna, Láru Gunnarsdóttur frá Botnastöðum, kveðjum við með vísubroti  sveitunga hennar, Jónasar Tryggvasonar:

Vöggulag kvöldsins sefandi syngur blær.
Svefnhöfgans dásemd nóttin í fangi ber.
Draumur um vor, sem var hér á ferð í gær
vitjar á ný síns upphafs og gleymir sér.

Tilvísarnir:
Kazuo Ishiguro nóbelsskáld:    http://www.dv.is/menning/2017/10/6/ishiguro-faer-nobelinn/  https://is.wikipedia.org/wiki/Kazuo_Ishiguro
Wikipedia/Davíð Helfgott: https://da.wikipedia.org/wiki/David_Helfgott
ARTE/Davíð Helfgott  https://www.arte.tv/de/videos/068387-000-A/hello-i-am-david/
Grettissaga/Á Reykhólum 50 kafli: https://www.snerpa.is/net/isl/grettir.htm
 Þjóðin kaus Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps: https://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=14123 
Um Þorstein söngstjóra : http://stikill.123.is/blog/2009/03/31/363559/
Þorsteinn söngstjóri Jónsson minningarljóð JTr: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?U=j0&ID=4972
Vöggustef JTr.:   http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=5506
Vísur Stefáns Sveins:   http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=26718
Lauffall JTr.:   http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=5507

Ingi Heiðmar Jónsson 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga