Pistlar | 05. nóvember 2017 - kl. 13:53
Yrkja/Brekkutré
Eftir Pál Ingþór Kristinsson

Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins

Hvers vegna og upphafið

Tuttugu ár eru liðin frá gróðursetningu í Háubrekku á vegum Grunnskólans á Blönduósi, nú Blönduskóla. Verkefnið Yrkja/Brekkutré varð til við sölu bókarinnar Yrkja í tilefni 60 ára afmælis Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Plöntun hófst á vegum margra skóla 1992 en hér var ekki áhugi fyrr en haustið 1997. Sjóðurinn útvegar skólum landsins 6 plöntur á hvern nemenda sem tekur þátt í verkefninu á hverju ári en umsjón með verkefninu hefur Skógræktarfélag Íslands. Sjóðurinn hefur eigin stjórn og er undirritaður Páll Ingþór Kristinsson einn af stjórnarmönnum.

Mikið átak var sett í gang við skólann á fyrstu árum eftir að plöntun hófst og tóku allir nemendur þátt. Nú hafa verið gróðursettar um 8 þúsund plöntur af um 30 tegundum. Gróðursett hefur verið í Háubrekku, Vetrarklauf, Miðholtsbrekku og út í Vatnahverfi. Í upphafi var Foreldrafélag Grunnskólans á Blönduósi með í verkinu og sendi það bréf inn á öll heimili grunnskólabarna með umsjónarmanni og áttu foreldrar/forráðamenna að merkja við hvað margir kæmu frá heimilinu. Þátttaka var góð og var verkefnið kynnt undir heitinu „Brekkutré - dagur trjáræktar grunnskólanema.“

Erfitt hefur verið að rækta trjágróður í Háubrekku en þar voru sauðfé og fuglar að skemma trén en einnig eru skilyrði mun verri þar en í Vetrarklauf. Vorið 2008 var hæst birkið 1,2 í Háubrekku en þar hófst gróðursetning haustið 1997. Nú á haustdögum mældist hæsta birkið 2,33 m eða tæpur 12 cm vöxtur að meðaltali á ári.

Vorið 1999 voru fengnir nokkrir styrktaraðilar á Blönduósi til að koma verkefninu af stað í Vetrarklauf. Þeirra hlutverk var að borga fyrir stærri tré sem voru upp undir 90 sm há en ekki 10 – 15 sm eins og bakkaplönturnar. Send voru bréf á vegum grunnskólans til 19 fyrirtækja og stofnana. Já svar kom frá 7 fyrirtækjum sem teljast þá stofnendur skógarreitsins í Vetrarklauf með Grunnskólanum á Blönduósi, auk undirritaðs sem hefur gefið ýmsar nýjar tegundir. Gefin voru 19 tré. Hæsta birkið frá fyrstu gróðursetningunni er orðið 3,85 m eða rúmlega 20 cm vöxtur að meðaltali á ári. Hæsta tréð í Vetrarklauf er alaskaösp sem er orðin 7,1 m en td sitkagreni, sem var fyrirtækjagjöf, er orðið 4,2 m.

Í Vetrarklauf er kominn fallegur skógarreitur sem er orðinn meira en mannhæða hár og með mörgum tegundum þó birkið og grenið séu mest áberandi. Um 30 tegundir af trjákenndum plöntum eru komnar í brekkuna en mest áberandi eru birki og grenitegundir. Meðal nýrra tegunda sem erfitt er að rækta eru eik, broddhlynur og alaskaepli.

Leikskólinn Barnabær hefur einnig komið að gróðursetningu á svæðinu og komu td í Vetrarklauf á fyrsta gróðursetningarári. Vegna nálægðar við leikskólann er svæðið gott sem útikennslusvæði.

Nú á haustdögum hafa nemendur í 3. og 4. bekk Blönduskóla hafið smíði á blýöntum og er efniviður í þá sóttur í skógarreitinn í Vetrarklauf.

Úr dagbók afmælisgróðursetningar

Miðvikudagurinn 25. október 2017. Snjólaust nema efst í fjöllum og varla komið frostnótt á Blönduósi það sem af er hausti og vetri. Stutt síðan hægt var að týna ófrosin krækiber. Góð fræmyndun á birki, alaskaösp og fleiri tegundum.

Hæg norðlæg átt, hiti 7,5 gráður og skýjað í Vetrarklauf. Besta veðrið í nokkurn tíma.

Úr Blönduskóla komu 1. – 8. bekkur ásamt kennurum og öðrum starfsmönnum. Fyrsti hópurinn kom rétt fyrir kl 10 og síðasti lauk verki rétt um kl 14. Með fyrsta hópnum voru Þórhalla Guðbjartsdóttir, skólastjóri og Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri. Þeirra hlutverk var að gróðursetja fyrstu tvær plönturnar með nemendum í 1. og 2. bekk.

Blönduskóli fékk 192 plöntur frá Sólskógum af sitkagreni í gegnum verkefnið Yrkju en var skráð fyrir 400 plöntum af birki sem var mestur fjöldi af plöntum á landsvísu. Gróðursettar voru 72 greniplöntur með hrossataði. Einnig voru gróðursettar 11 pottaplöntur sem voru keyptar sérstaklega fyrir daginn og til að auka fjölbreytni í skógarreitnum.

Ýmislegt fleira var gert í tilefni dagsins. Flutt voru ljóð sem samin voru af börnum í Blönduskóla fyrir verkefnið Yrkja á landsvísu 2012. Sett upp upplýsingafjöl með myndum frá fyrstu gróðursetningunni.

Margar ánægjustundir hefur undirritaður átt með börnum og starfsfólki Blönduskóla á þessum 20 árum og er stoltur að vera þátttakandi með þeim í að auðga landið, binda koltvísýring og eiga ánægjustundir með þeim.

Undirritaður hefur haft umsjón með verkefninu frá upphafi og fagleg þekking komið frá Skógræktarfélagi Austur – Húnvetninga.

Páll Ingþór, eftirlitsmaður eigna hjá Blönduósbæ og formaður Skóg A-Hún.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga