Fréttir | 12. nóvember 2017 - kl. 22:28
Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps sigraði

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps kom, söng og sigraði í sjónvarpsþættinum Kórar Íslands en lokaþátturinn var sýndur í beinni útsendingu á Stöð2 í kvöld. Kórinn sigraði í símakosningu þar sem rúmlega 40 þúsund atkvæði voru greidd og hlaut fjórar milljónir króna í sigurlaun. Það ríkti fölskvalaus gleði meðal kórmanna og aðstandenda þeirra sem mættir voru í upptökustúdíóið í Ásbrú í Reykjanesbæ í kvöld. Um hundrað manns mættu í Félagsheimilið á Blönduósi til að fylgjast með þættinum og var stemningin frábær. Allt ætlaði um koll að keyra þegar úrslitin voru kunngerð.

Kórarnir sem kepptu til úrslita í kvöld voru Vox, Felix, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, Gospelkór Jón Vídalíns, Spectrum, Kór Lindakirkju og Karlakórinn Esja.

Kórar Íslands er skemmtiþáttur sem var á dagskrá Stöðvar 2 í fyrsta skipti í vetur en Friðrik Dór Jónsson, einn ástsælasti söngvari landsins, var kynnir þáttanna. Dómnefndina skipuðu tónlistarfólkið Kristjana Stefánsdóttir, Ari Bragi Kárason, og Bryndís Jakobsdóttir.

Nánar verður fjallað um sigur Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps á morgun.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga