Fréttir | 13. nóvember 2017 - kl. 11:57
Húnvetnskir karlar heilluðu þjóðina

„Bjóst ég við þessu? Nei, bara alls ekki,“ sagði Skarphéðinn Einarsson stjórnandi Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps í samtali við Húnahornið í gærkvöldi eftir að í ljós kom að kórinn hafði unnið keppnina Kórar Íslands. Lokaþátturinn fór fram gærkvöldi þar sem sex kórar kepptu til úrslita. Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps söng lagið Sem lindin tær og sigraði í símakosningu. „Þetta er búið að vera ótrúlegt ferðalag og ég segir nú bara eins og fegurðardrottningarnar, nú brosir maður í gegnum tárin,“ sagði Höskuldur B. Erlingsson formaður karlakórsins kampakátur með árangurinn.

Kórar Íslands er skemmtiþáttur sem var á dagskrá Stöðvar 2 í fyrsta skipti í vetur en Friðrik Dór Jónsson var kynnir þáttanna. Dómnefndina skipuðu tónlistarfólkið Kristjana Stefánsdóttir, Ari Bragi Kárason, og Bryndís Jakobsdóttir. Í lokaþættinum í gærkvöldi kepptu kórarnir Vox Felix, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, Gospelkór Jón Vídalíns, Spectrum, Kór Lindakirkju og Karlakórinn Esja. Allir þessi kórar höfðu sungið sig í gegnum undankeppni og undanúrslit. Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps var í bæði skiptin kosinn áfram í símakosningu þar sem þjóðin hafði valið.

Undanfarnar vikur verið ótrúlegt ferðalag
Það mátti búast við því að þjóðin myndi áfram styðja vel við bakið á kórnum í sjálfri úrslitakeppninni og sú varð raunin. „Vá, þetta var svakalegt. Bjóst ég við þessu? Ja, bæði já og nei, sko alveg eins bara,“ sagði Höskuldur B. Erlingsson formaður kórsins í samtali við Húnahornið í gærkvöldi. Hann sagði að undanfarnar vikur hefðu verið ótrúlegt ferðalag. „Við erum búnir að finna rosalega mikinn áhuga og mikinn meðbyr með okkur. Allir voru að stíga þessi skref saman með okkur, allt annað lagt til hliðar, sama hvað það var. Það voru allir að tala um þetta og styðja okkur í þessi. Þetta er búð að vera frábært, mjög gaman og mjög gefandi.“

Aðspurður hvað verkefni sem þetta gerði fyrir kórinn sagði Höskuldur það vera gríðarlega mikið. „Þetta hefur þjappað okkur saman, aukið samheldnina hjá okkur og verið innspýting og vítamínsprauta fyrir félagsstarfið okkar. Fyrst þegar það var nefnt að fara í keppnina vorum við ekki bjartsýnir um að við gætum það, að við myndum ekki ná í mannskap. Við vorum ansi svartsýnir á tímabili meðal annars vegna þess að við áttum að taka þátt í fyrsta þættinum og kórmenn voru enn í göngum, fjárleitum og réttum. Okkur reiknaðist til að við gætum orðið 16 eða 18, svo við ákváðum við að kýla á þetta. Og það var bara þannig að enginn mátti verða veikur, fá flensu eða eitthvað þvíumlíkt. Það bjargaði svo miklu fyrir okkur að við vorum færðir úr fyrsta þættinum yfir í þann þriðja. Það þýddi að fleiri gátu tekið þátt.“

Gaman að finna fyrir öllum stuðningnum
Kórinn kom fram í fyrsta sinn í keppninni 8. október síðastliðinn, söng lagið Í fjarlægð og var kosinn áfram í undanúrslit. Í undanúrslitunum söng kórinn lagið Gæfa hestamannsins eftir Skarphéðinn Einarsson við texta Benedikts Blöndal Lárusson og skilaði frábær flutningur sér í því að þjóðin kaus kórinn inn í sjálfa úrslitakeppnina. Kórinn hefur því þurft að ferðast þrisvar sinnum á skömmum tíma til Reykjanesbæjar þar sem keppnin hefur farið fram í Ásbrú. „Það er töluverður kostnaður að halda úti kór og kórinn á ekki mikinn pening. Það maldaði enginn í móinn þegar ákveðið var að við færum bara á einkabílum í þessar ferðir. Allir voru til í að skipta kostnaði á milli sín, skipta bílum á milli sín og svo framvegis. Og þetta bara gerðum við. Í dag [í gær] ákvæðum við að taka rútu, nei ég meina hópbifreið,“ sagði Höskuldur og hlær dátt.

Um hundrað manns voru saman komin í Félagsheimilinu á Blönduósi í gærkvöldi til að fylgjast með karlakórnum í beinni útsendingu og var þar mikil og góð stemning. „Það er ofboðslega gaman að finna fyrir öllum stuðningnum úr samfélaginu fyrir norðan, gríðarlega gaman. Þetta hefur verið upplyfting fyrir samfélagið í heild og ef ég á að nefna einhvern einn, þá verð ég að fá að hrósa Bóthildi. Hún er algjör snillingur, mikill aðdáandi okkar og það var hún sem átti hugmyndina að þessu með Félagsheimilið. Bóthildur hefur verið mjög dugleg að pósta myndböndum með okkur á Facebook á hverjum einasta degi, lag dagsins með okkur, sem er frábærlega skemmtilegt. Bóthildur fær knús frá okkur þegar við komum heim.“

Sæll, glaður og þakklátur
Skarphéðinn Einarsson, stjórnandi Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps var sæll, glaður og þakklátur eftir keppnina í gærkvöldi. Hann sagði að nú væri mikilli törn og rosalegri vinnu lokið. „Það fyrsta sem mér datt í hug þegar úrslitin voru tilkynnt að það yrði ekki æfing má morgun,“ sagði Skarphéðinn og hlær. „Þetta er búin að vera heilmikil vinna og knappur tími til að æfa þessi lög sem við höfum flutt. Við misstum t.d. eina viku út vegna tveggja jarðafara.“

Aðspurður um fjölda kórmanna í kvöld sagði hann að þeir væru 44 og að það vantaði aðeins einn sem væri með flensu heima. „Við vorum í byrjun um 20 og sem betur fer vorum við beðnir um að færa okkur aftur um tvær vikur og þá bættust 10 í hópinn og þá fór þetta að verða kór. Síðan hefur verið að fjölga stöðugt. Þessi kór hefur aldrei verið svona fjölmennur frá upphafi eins og hann var hér í kvöld.“

En hvert er svo framhaldið hjá kórnum? „Sko, það var á áætlun að æfa upp prógrammið sem við vorum með í vor og ætluðum við að koma með það hingað suður. Við þurftum að leggja þau plön til hliðar út af þessu verkefni og frestuðum því fram yfir áramót. Þannig að það er næsta mál á dagskrá. Svo var búið að ákveða að fara í ferðalag til Ítalíu næsta sumar og þessi úrslit hér í kvöld eru nú heldur betur lottóvinningur fyrir það,“ sagði Skarphéðinn og bætti við að það sé ekki nema ár síðan að hann tók við kórnum. „Þetta var gott efni sem ég fékk í hendurnar og þeir [kórmenn] eru búnir að vera ofboðslega duglegir, jákvæðir og skemmtilegir. Gaman að vinna með þeim.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga