Þingeyrakirkja. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Þingeyrakirkja. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Pistlar | 07. desember 2017 - kl. 09:37
Stökuspjall: Guðaðu á gluggann minn
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Um ljóð og sendibréf leitum við leiða til fortíðar, tengjum okkur við söguna eða sækjum til orðaforða áa okkur. Miðlar nútímans, vefir og póstar eru kjörlendi fyrir samskipti fárra manna í stóru landi. Ör skipti. Áður var póstur borinn á bakinu eða reiddur í kistum frá Stað í Hrútafirði, aðalleiðina suður, vestur í Dali, norður Strandir og svo áfram um Norðurland. Og hjólin verða að snúast eigi ferðin að ganga! Ritgleðin og skáldskapurinn hafa lengi staðið – þó stundum hjarað – á frónskum ströndum og fríðum dölum að ógleymdum völlum Rangæinga þar sem söguslóðir Njálssögu leynast. Öll héruð eiga sína sögu, sumar má finna í Landnámu eða þjóðsögunum sem safnað var á nítjándu öldinni og æ síðan, en skáldin sækja innblástur og efni til þeirra sagna.

Bjarni frá Gröf er orðsnjall, óspar á grín um eigið ágæti sem og lesti. Hann veitir áheyrendum sínum keim af þeim unað sem fljóðið Gunna býr yfir:

Á meðan öndin í okkur hjarir
og ástin bruggar sitt rauða vín
þínir kossar og þrýstnu varir
er þúsundfaldasta gleðin mín.

Þeir Bjarni og Sigvaldi í Enniskoti voru á líkum aldri, hagyrðingar báðir og ljóðabréf sendi úrsmiðurinn æskuvini sínum heim í Víðidalinn. Hann þakkar honum góða skemmtun í ferð þeirra um grónar rústir, Miðhópssel og Grafardali. Bjarni var orðinn afvanur fákum:

Var ég hræddur við ég myndi velta af baki.
Ég hafði ekki árum saman
átt við svona reiðargaman.

Bjarni hefur lengi verið vel metinn af traustum aðdáendahópi og vísur hans að jafnaði hlýjar og smellnar:

Vanti skjól á veginn þinn
vetur þegar dynur.
Guðaðu á gluggann minn
gamli bernskuvinur.

Til annars Húnvetnings og vísnasmiðs, Gísla frá Eiríksstöðum orti Bjarni:

Láttu góða vísu og vín
verma ljóðastrengi.
Andans glóðar gullin þín
geymir þjóðin lengi.

Vísan líkist hundrað öðrum, vel sköpuð og minnir lesandann á hið flókna samband skálds og samferðarmannanna. Hvorugt má án hins vera.

En það þarf ekki endilega að lesa gömul ljóð til að fá sér siglingu á öldum sögunnar: Á bókasafninu freistaði mín látlaus bók og nýkomin, eftir Svein Einarsson. Sveinn er sögumaður, kannski þessi með greini en þar eru svo margir í framboði að óráð er að hefja þá umræðu en hér kemur saga af bls. 83.

„Udbye var organisti Niðarósdómkirkju um miðbik 19. aldar. Hann langaði mjög að mennta sig meira í listinni, en var óvart kominn með konu og fjögur börn, sem flækti málið. Þá kom til skjalanna rík og fín frú, sem sagði:„Þér farið til Leipzig í tvö ár, góði maður, ég sé um konu og börn." Og hann hélt alsæll suður á bóginn og lærði hjá nemendum Mendelsohns."

Gunnar í Hrútatungu hitti ég í Bókakaffinu v/Austurveginn á Selfossi í gær, einn sögumaðurinn til og minnugur eftir því.

Magnús á Stað var að flytja norður hey á flutningabílnum sínum á kalárunum um 1968 og var svo snjall að fá kaupendur syðra að heyrudda í böggum sem Húnvetningum voru útbærir og Magnús hafði flutning báðar leiðir. Eitt sinn er hann seint um kvöld í Reykjavík og fer upp á Hótel Sögu þar sem fær herbergi og spurði eftir bændaafslætti. Jú, hann var til staðar en hafði hann skilríki? Ekki var það, svo stúlkan segir honum að hún geti ekki gefið honum afsláttinn. En Magnús hefur annað bevís, fer úr öðrum skónum og hristir úr honum heymoð á borðið. Það dugði og Magnús svaf vel í Bændahöllinni eftir strangan dag.

Seinni sagan er af Birni Pálssyni þingmanni, sem var á Framsóknarþingi í Húnaveri en þar voru líka Ólafur Jóhannesson samþingsmaður hans og Ólafur Ragnar Grímsson sem ekki var orðinn þingmaður. Undir kvöld hurfu þeir síðarnefndu báðir suður en þeir sem eftir voru settust að kvöldverði þar í félagsheimilinu. Þá stendur Björn upp og segir: Ólafarnir eru nú farnir og nú skulum við hafa gaman! Og það var sko gaman lýkur Tómas Gunnar sögumaður máli sínu.

Ætli ritari verði maður fyrir meira stökuspjalli þetta árið, ég vil óska lesendum spjalls og Húnahorns gleðilegra jóla og þakka fyrir liðið ár. Þakkarefni annað er, hve blítt sólskinið var á Tjarnartúninu messudaginn góða í ágúst og stundin ljúf í kaffinu á Geitafelli.

 Tilvísanir:

Gunna, ljóð Bjarna frá Gröf: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=5568 
Vísur Bjarna í eldra stökuspjalli: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13600
Ljóðabréf Bjarna til Sigvalda: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?U=b0&ID=5567
Sigvaldi í Enniskoti: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=16064  
Organistinn norski: https://no.wikipedia.org/wiki/Martin_Andreas_Udbye
Messudagur á Tjörn 20/8 ´17: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=14000

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga