Fréttir | 14. desember 2017 - kl. 09:56
Fjárhagsáætlun Húnavatnshrepps samþykkt með jákvæðri niðurstöðu

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps samþykkti á fundi sínum í gær fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2018. Samkvæmt henni er rekstrarniðurstaðan fyrir samstæðu A- og B-hluta sveitarsjóðs jákvæð sem nemur tæplega tíu milljónum króna. Tekjur eru áætlaðar um 485 milljónir og gjöld um 475 milljónir. Við gerð áætlunarinnar var, eins og undan farin ár, lögð áhersla á aðhald í rekstri, að því er segir í bókun sveitarstjórnar.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar Húnavatnshrepps fyrir árið 2018 eru:

  • A-hluti sveitarfélagsins er lagður fram með 12.525.000 kr. tekjuafgangi.
  • B-hluti sveitarfélagsins er lagður fram með 2.871.000 kr. rekstrarhalla.
  • Samstæðan er því lögð fram með 9.654.000 kr. tekjuafgangi.
  • Tekjur samstæðunnar eru áætlaðar 484.701.000 kr.
  • Gjöld samstæðunnar eru áætluð 463.607.000 kr. án fjármagnsliða.
  • Fjármagnsliðir eru áætlaðir neikvæðir um 11.440.000 kr.
  • Handbært fé frá rekstri til greiðslu afborgana lána og til fjárfestinga er um 23 m.kr
  • Gert er ráð fyrir eignfærðri fjárfestingu á árinu 2018 upp á kr. 32,5 milljónir.
  • Stærsta einstaka framkvæmdin á árinu 2018 er áframhaldandi viðhald Húnavallaskóla.
  • Skuldahlutfall er um 40% fyrir árið 2018 en má samkvæmt ákvæðum fjármálareglna mest vera 150%.

Á liðnum árum hefur sveitarstjórn Húnavatnshrepps almennt hækkað gjaldskrár í samræmi við verðlagsbreytingar og er sami háttur hafður á fyrir árið 2018. Vistunargjald leikskóla og gjaldskrá fyrir skólamötuneyti eru þó ekki hækkuð.

Í fjárhagsáætlun ársins 2018 eru álagningaprósentur fasteignagjalda óbreyttar frá fyrra ári. Á árinu 2018 er áfram gert ráð fyrir talsverðum fjárfestingum og framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins. Í bókun sveitarstjórnar segir að þessar framkvæmdir séu mögulegar vegna góðrar eiginfjárstöðu sveitarfélagsins.

Auk hefðbundinna viðhaldsframkvæmda skal einnig nefnt að lokið verður að leggja ljósleiðara um sveitarfélagið á árinu 2018. Áfram verður unnið að endurbótum skólahúsnæðis Húnavallaskóla og öðrum fasteignum sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið eða B deildarfélög þess taki lán á árinu 2018 til að standa undir viðhaldsframkvæmdum.

Þá segir í bókun sveitarstjórnar: „Þrátt fyrir miklar framkvæmdir á liðnum árum er fjárhagsstaða sveitarfélagsins góð. Rétt er að geta þess að stærsta framkvæmd sem sveitarfélagið hefur ráðist í er lagning ljósleiðara um sveitarfélagið. Sífellt erfiðara verður að uppfylla kröfur um að áætlanir sýni jákvæða rekstrarniðurstöðu vegna aukins kostnaðar við nær alla málaflokka. Þar vegur aukinn launakostnaður þyngst, á meðan tekjur hafa ekki aukist í sama hlutfalli. Því er afar mikilvægt að halda áfram að sýna ráðdeild í rekstri.“

Fjárhagsáætlunin var samþykkt samhljóða.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga