Fréttir | 09. janúar 2018 - kl. 16:09
Brennó í Íþróttamiðstöðinni

Íþróttamiðstöðin á Blönduósi býður konum, frá 10. bekk og eldri, upp á brennibolta á mánudagskvöldum í vetur, klukkan 19:30-20:30. Fyrsti tíminn er mánudaginn 15. janúar og kostar stakur tími 600 krónur. Tíu tímar kosta 4.500 krónur. Margir kannast við brennó af skólalóðinni. Þátttakendum er skipt í tvö lið með útikóng og á hann þrjú líf. Hvort lið á að reyna að hitta andstæðingana og þegar það tekst fer viðkomandi yfir til síns útikóngs.

Ef boltinn er gripinn, á sá liðsmaður sem kastaði honum að fara til síns útikóngs. Þegar aðeins einn maður er eftir á öðrum hvorum vallarhelmingi fer útikóngur þess liðs út og á þá, eins og áður sagði, þrjú líf. Ekki má teygja sig yfir á vallarhelming andstæðingsins til að ná boltanum. Allir mega elta boltann ef hann fer út fyrir hliðarlínu, en ef hann fer aftur fyrir á liðið sem þar er, boltann. Þegar enginn er eftir á vallarhelmingi annars liðsins er það lið búið að tapa leiknum.

Í tilkynningu frá Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi segir að mikilvægt sé að hafa með sér húmor og dass af keppnisskapi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga