Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Fréttir | 10. janúar 2018 - kl. 16:12
Húnaborg vill byggja á Blönduósi

Einkahlutafélagið Húnaborg á Blönduósi hefur sótt um tvær lóðir fyrir atvinnu- og geymsluhúsnæði að Ennisbraut 5 og 7 á Blönduósi. Félagið hefur einnig sótt um lóð fyrir þriggja íbúða raðhús að Sunnubraut 13-17 og lóð fyrir fjögurra íbúða raðhús að Smárabraut 19-25. Skipulags-, umhverfis- og umferðarnefnd Blönduósbæjar tekur jákvætt í umsóknirnar og mælir með því við byggðaráð úthluti lóðunum til félagsins samkvæmt úthlutunarreglum sveitarfélagsins.

Í umsóknum um atvinnulóðirnar er gert ráð fyrir að húsin tvö verði hvort um sig 375 fermetra stálgrindahús á steyptum sökklum klætt með samlokueiningum. Þeim verður skipt upp í 3-5 einingar frá 75 fermetra að stærð. Áætlað er að framkvæmdum verði lokið innan sex til níu mánaða frá útgáfu byggingaleyfis.

Í umsókn um íbúðahúsin er gert ráð fyrir að húsið við Sunnubraut 13-17 verði með þremur 100 fermetrar íbúðum með innbyggðum bílskúrum. Húsið verður lágreist timbureiningahús á staðsteyptum grunni. Hver íbúð verður með 1-2 svefnherbergjum. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á vormánuðum og að fullu lokið innan tólf mánaða frá því framkvæmdir hefjast.

Húsið við Smárabraut 19-25 verður með fjórum 120 fermetra íbúðum með innbyggðum bílskúrum. Húsið verður lágreist timbureiningahús á staðsteyptum grunni. Hver íbúð verður með 2-3 svefnherbergjum. áætlað er að framkvæmdir hefjist í október 2018 og að fullu lokið innan 12 mánaða frá því framkvæmdir hefjast.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga