Arnar Þór Sævarsson
Arnar Þór Sævarsson
Fréttir | 18. janúar 2018 - kl. 19:21
Arnar Þór aðstoðarmaður ráðherra

Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra hefur ráðið Arnar Þór Sævarsson, sveitarstjóra á Blönduósi aðstoðarmann sinn í velferðarráðuneytinu. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að Arnar Þór muni á næstunni sinna afmörkuðum verkefnum fyrir ráðherra samhliða störfum sveitarstjóra en kemur að fullu til starfa í velferðarráðuneytinu í vor. Arnar Þór er annar tveggja aðstoðarmanna Ásmundar. Hinn aðstoðarmaðurinn er Sóley Ragnarsdóttir.

Arnar Þór útskrifaðist úr lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1999 og tók ári síðar réttindi til að gegna lögmennsku. Hann hefur gegnt stöðu sveitarstjóra á Blönduósi frá árinu 2007. Áður var hann aðstoðarmaður Jóns Sigurðssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins, þegar hann var iðnaðar- og viðskiptamálaráðherra 2006 – 2007. Árin 2002 til 2006 starfaði Arnar sem lögfræðingur hjá Símanum og sem lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu árin 1999 – 2002.

Arnar Þór er fæddur árið 1971. Maki hans er Gerður Beta Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Landspítala.  Þau eiga saman þrjú börn; Arnar Frey 22ja ára, Ásrúnu Ingu, 11 ára og Eyrúnu Önnu 8 ára.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga