Eyþór fær viðurkenningu frá Húnahorninu.
Eyþór fær viðurkenningu frá Húnahorninu.
Húsfyllir í Félagsheimilinu á Blönduósi. Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps skemmtir þorrablótsgestum.
Húsfyllir í Félagsheimilinu á Blönduósi. Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps skemmtir þorrablótsgestum.
Fréttir | 03. febrúar 2018 - kl. 10:56
Eyþór Franzson Wechner er maður ársins 2017 í Austur-Húnavatnssýslu

Lesendur Húnahornsins hafa valið Eyþór Franzson Wechner, organista Blönduóskirkju og píanókennara við Tónlistarskóla Austur-Húnavatnssýslu, sem mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu árið 2017. Eyþór er einstaklega hæfileikaríkur organisti og hefur tónlistarflutningur hans vakið aðdáun allra Húnvetninga sem á hann hafa hlustað. Eyþór átti stóran þátt í sigurgöngu Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps í keppninni um kóra Íslands á síðasta ári.

Eins og venja er var tilkynnt um niðurstöðuna í valinu á Blöndublóti, þorrablóti Blönduósinga, í kvöld og tók Eyþór þar við viðurkenningarskildi og gjöf frá Húnahorninu.

Allir þeir sem sendu inn tilnefningu er þökkuð þátttakan en hún var mjög góð að þessu sinni. Fjölmargir fengu verðskuldaða tilnefningu en segja má að velgengni Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps í keppninni um kóra Íslands á Stöð 2 í október hafi verið mörgum efst í huga. Flestir tilnefndu kórinn, stjórnanda hans, Skarphéðinn Húnfjörð Einarsson og undirleikara kórsins, Eyþór Franzson Wechner. Eyþór sigraði að lokum með flestar tilnefningar.

Eyþór fæddist á Akranesi árið 1990 og byrjaði að læra á píanó sjö ára gamall en skipti 14 ára yfir á orgel. Fyrst lærði hann undir leiðsögn Úlriks Ólasonar en síðar hjá Birni Steinari Sólbergssyni við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Íslands. Að loknu námi þar hélt Eyþór til náms í Þýskalandi. Árið 2012 lauk hann Bachelor of Arts gráðu í orgelleik frá Hochschule für Musik und Theater Leipzig og tveimur árum seinna Masters of Art gráðu frá sama skóla. Eyþór hefur komið fram á einleikstónleikum á Íslandi, Þýskalandi og í Ástralíu. Hann hefur starfað sem organisti við Kristskirkju í Landakoti, Hallgrímskirkju, Fella- og Hólakirkju og er nú starfandi organisti í Blönduóskirkju, síðan í september 2015.

Þetta er í þrettánda sinn sem lesendur Húnahornsins velja mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu.

Menn ársins síðustu ár eru þessir:

2017: Eyþór Franzson Wechner
2016: Skarphéðinn Húnfjörð Einarsson
2015: Róbert Daníel Jónsson
2014: Brynhildur Erla Jakobsdóttir
2013: Elín Ósk Gísladóttir
2012: Kári Kárason og Pétur Arnar Kárason
2011: Einar Óli Fossdal
2010: Bóthildur Halldórsdóttir
2009: Bóthildur Halldórsdóttir
2008: Lárus Ægir Guðmundsson
2007: Rúnar Þór Njálsson
2006: Lárus B. Jónsson
2005: Lárus B. Jónsson

Húnahornið óskar Eyþóri innilega til hamingju með útnefninguna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga