Fréttir | 07. febrúar 2018 - kl. 09:35
Niðurfelling Blöndulínu sem varnarlínu

Blöndulína hefur verið felld niður sem varnarlína vegna dýrasjúkdóma með ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Takmarkanir á flutningum sauðfjár í fyrrum Húnahólfi lengist sem nemur nýjasta tilfelli riðu í fyrrum Skagahólfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Stofnunin telur mikilvægt að viðhalda varnarlínum, einkum á áhættusvæðum riðu, og reyna þannig að stemma stigu við útbreiðslu smitsjúkdóma. Í tilkynningunni segir að Blöndulína í núverandi mynd þjóni hins vegar ekki tilætluðum tilgangi. Ljóst sé að varnarlínan hafi ekki verið fjárheld frá því Blönduvirkjun var reist og ekki fáist fjármagn til að halda varnarlínunni fjárheldri. Með auglýsingu nr. 88/2018 um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma fellur varnarlínan niður frá 1. febrúar síðastliðinn

Við þessa breytingu sameinast Húnahólf og Skagahólf í eitt varnarhólf sem kallast Húna- og Skagahólf og verður varnarhólf nr. 9. Hólfið mun afmarkast af Vatnsneslínu, Miðfjarðarlínu og Tvídægrulínu að vestan, Kjalarlínu að sunnan og Héraðsvatnalínu að austan.

Sjá nánar á vef Matvælastofnunar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga