Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Fréttir | 07. febrúar 2018 - kl. 16:02
Mikil fjölgun íbúa í Blönduósbæ

Íbúum Blönduósbæjar fjölgaði um 33 á síðasta ári eða um tæplega 4% og hefur viðlíka fjölgun á einu ári ekki orðið í að minnsta kosti 20 ár. Íbúar voru 899 talsins þann 1. janúar 2018 en voru 866 1. janúar 2017. Þróunin hefur verið jákvæð síðastliðin þrjú ár sem er ánægjulegt, sérstaklega í ljósi þess að frá árinu 1998 hefur íbúum fækkað um 138 eða um rúmlega 13%.

Fyrir 20 árum síðan var íbúafjöldi í Blönduósbæ 1037 talsins. Frá þeim tíma hefur tíu sinnum orðið fækkun á einu ári, mest árið 2000 þegar íbúum fækkaði um 43 og næst mest árið 2005 þegar íbúum fækkaði um 36 á einu ári. Á sama tímabili hefur í tíu sinnum orðið fjölgun á einu ári, mest á síðasta ári, um 33 íbúa eins og áður hefur komið fram, og næst mest árið 2011 þá um 22 íbúa á einu ári.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga