Nöldrið | 08. febrúar 2018 - kl. 21:11
Þorrapistill

Þrátt fyrir rysjótt veðurfar á þessu nýbyrjaða ári getum við Blönduósingar glaðst yfir ýmsu sem er að gerast hjá okkur. Fyrst skal nefna það að á síðastliðnu ári fjölgaði íbúum bæjarins um 33 einstaklinga samkvæmt frétt sem Húnahornið flutti okkur. Þetta eru ánægjuleg tíðindi og mín tilfinning er að hér sé mest um ungt fólk að ræða sem er að setjast hér að. Sama dag birtist líka frétt um að unnið sé að undirbúningi smíðastofu við Blönduskóla en aðstöðu fyrir verklega kennslu hefur lengi vantað við skólann. Og enn ein gleðifréttin birtist á Húnahorninu þennan dag og nú um framkvæmdir í Félagsheimilinu. Þar er verið að breyta eldhúsinu og endurnýja tæki og var víst ekki vanþörf á. Auk þess sem eldhúsið er búið að vera á undanþágu um langt skeið. Þá hefur verið málað og lagfært í danssal auk þess sem nýjar gardínur voru settar fyrir glugga. Núverandi húsverðir haf líka lagt metnað sinni í að hugsa vel um húsið, hvað varðar þrif og alla umgengni og ber að þakka það. Ég veit að það gleður marga að Félagsheimilinu okkar sé eitthvað gert til góða.

Fjölmargir Blönduósingar bera hlýjar tilfinningar til þessa húss, enda stóðu á sínum tíma, félagasamtök í bænum, auk fyrirtækja, straum af kostnaði við byggingu þess eftir því sem þau höfðu efni til, auk styrkja frá ríki og sveitarfélögum í sýslunni. Einnig voru ófá handtök unnin þar í sjálfboðavinnu. Félagsheimilið á Blönduósi þótti  glæsilegasta félagsheimilið á landsbyggðinni þegar það var risið enda var gríðarlegur metnaður hjá því fólki sem var í byggingnefnd hússins og má í því sambandi benda á að ekkert af þeim félagsheimilum sem risu vítt og breytt um landið á þessum árum  voru með tveimur sölum, það er danssal af bestu gerð og leik- og bíósal með hallandi gólfi og þægilegum sætum. Húsið var og er mikill menningarauki fyrir héraðið og gleymum því ekki að menning kostar alltaf peninga.  Já við getum sannarlega ennþá verið stolt af húsinu okkar og væri óskandi að misvitrir sveitarstjórnarmenn láti  það ekki ganga okkur úr greipum. Við þurfum á því að halda og ekki bara Blönduósingar heldur sýslan öll.

Þótt allir sem ég hef heyrt í og mættu á bráðskemmtilegt þorrablót séu ánægðir með bæði matinn og skemmtiatriðin þá eru flestir á því, að betra sé að hafa blótið fyrsta laugardag í þorra eins og hefð hefur verið fyrir hér um árabil. Eflaust er þessi seinkun á blótinu því að kenna að framkvæmdir í Félagsheimilinu drógust á langinn. Hafið þetta í huga næst allt það frábæra fólk sem sá um blótið í ár.

Ég tek heilshugar undir skrif Björns Þórs á B&S veitingastað, þar sem hann hælir fiskbúðinni okkar hér á Blönduósi og hvetur Húnvetninga til að kaupa þar fisk á sína diska. Rekstur fiskbúðar er frekar sjaldgæfur í ekki stærra samfélagi en hér er og ef við íbúarnir verslum þar ekki er sjálfhætt, segir Björn Þór og það er svo sannarlega orð að sönnu. Það þarf heldur ekki að kvarta undan lélegu úrvali í fiskbúðinni, því þar er framboð með ágætum.

Það er margt sem betur mætti gera  varðandi það að laða að ferðamenn og fjölga afþreyingu fyrir þá sem hér stoppa og vilja skoða sig um í sýslunni. Eina litla ábendingu langar mig að koma með. Fyrir skömmu ók ég fram hjá skiltinu sem  vísar fólki á staðinn þar sem síðasta aftaka á Íslandi fór fram. Þetta skilti lætur ekki mikið yfir sér, sömu gerðar og er við heimreiðar að sveitabæjum. Þetta umrædda skilti bendir eitthvað út í buskann, eða svo hlýtur ókunnugum að finnast. Á skiltinu stendur Þrístapar (sem gárungarnir kalla þrista par). Ég efast um að margir sem ekki þekkja til sögunnar stoppi þarna til að lesa á upplýsingaskilti sem þarna er á kafi í sinu. Nú hefur þessi saga um Natan og Agnesi aldeilis verið í umræðunni að undanförnu eftir að skrifuð var bók um þau skötuhjú. Þá stendur til að gera kvikmynd  eftir þessari bók, sem heitir Náðarstund en höfundur hennar er áströlsk stúlka, Hannah Kent sem var skiptinemi í Skagafirði  fyrir nokkru síðan, heyrði um döpur örlög þessa fólks og gerði þér lítið fyrir og skrifaði um þau bók, sem hefur verið þýdd á fjölda tungumála. Væri nú ekki ráð að gera meira úr þessum stað og gera umhverfi hans þannig úr garði að áhugavert væri að staldra þar við og fræðast um söguna. Aðra staði með aðrar sögur væri svo vert að finna  og sýna ferðafólki.

Áður en ég set punktinn aftan við þennan pistil vil ég óska Eyþóri Franzsyni Wechner, manni ársins til hamingju með titilinn. Þetta var vel valið hjá lesendum Húnahornsins.

Bestu kveðjur frá Nöldra.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga