Ljósm: hunathing.is
Ljósm: hunathing.is
Fréttir | 13. febrúar 2018 - kl. 11:29
Tillaga að deiliskipulagi fyrir hafnarsvæðið á Hvammstanga auglýst að nýju

Húnaþing vestra auglýsir á vef sínum tillögu að deiliskipulagi fyrir hafnarsvæðið á Hvammstanga. Sveitarstjórn samþykkti 8. febrúar að endurauglýsa tillöguna en hún var áður auglýst frá 2. maí til 14. júlí í fyrra. Vegna athugasemda sem komu fram var ákveðið að endurauglýsa breytta og endurbætta tillögu að undangegnum íbúafundi.

Íbúafundur um tillöguna var haldinn þann 15. janúar síðastliðinn. Breytingar frá fyrri tillögu felast helst í því að lóðir við Tanga voru felldar út, rökstuðningur fyrir vali á íbúðarlóð bætt inn, breytingar á lóðarmörkum og ný rútustæði ásamt endurbættri fornleifaskráningu. Deiliskipulagssvæðið liggur vestan Strandgötu, Brekkugötu og Höfðabrautar og er samtals um 11 ha að stærð.

Deiliskipulagstillagan ásamt greinargerð og fornleifaskýrslu verður til sýnis í Ráðhúsi Húnaþings vestra frá 13. febrúar - 27. mars 2018 og á heimasíðunni: www.hunathing.is.

Frestur til að skila athugasemdum er til og með 27. mars nk.

Athugasemdum skal skilað til skrifstofu Húnaþings vestra, Hvammstangabraut 5, 530 Hvammstanga eða á netfangið skrifstofa@hunathing.is þar sem nafn, kennitala og heimilisfang sendanda kemur fram.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga