Fréttir | 14. febrúar 2018 - kl. 15:08
Bitcoin námugröftur á Blönduósi

Alls gætu skapast 30 störf eða fleiri á Blönduósi á næstu þremur árum þegar gagnaver Borealis Data Center taka til starfa. Arnar Þór Sævarsson sveitarstjóri Blönduósbæjar segir í Morgunblaðinu í dag að þumalputtareglan sé að fyrir hvert megavatt orku verði til eitt starf í fyrirtækinu sjálfu og hálft annað afleitt starf. Gert er ráð fyrir að gagnaverin þurfi á 15 megavöttum að halda. Arnar Þór segist sjá fyrir sér að á næstu árum muni bætast við fleiri gagnaver með fjölbreyttri starfsemi.

Fram kemur í Morgunblaðinu að gagnaver Borealis muni einbeita sér að bitcoin-námuvinnslu. Arnar Þór sér fyrir sér að á næstu árum muni bætast við fleiri gagnaver með fjölbreyttari starfsemi.

Á sveitarstjórnarfundi Blönduósbæjar í gær lagði minnihlutinn í sveitarstjórn fram bókun þar sem meirihlutinn er hvattur til þess að gæta vel að hagsmunum Blönduósbæjar í því mikilvæga verkefni sem gagnaversverkefnið er. „Í því sambandi viljum við árétta að gagnaver er hagsmunamál þjóðfélagsins í heild og því ættu aðrar stofnanir og fyrirtæki samfélagsins að koma frekar að þessu máli,“ segir í bókun minnihlutans.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga