Frá Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Frá Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Fréttir | 21. mars 2018 - kl. 13:06
Breytingar á stjórnun Blönduósbæjar

Um mánaðamótin lætur Arnar Þór Sævarsson af störfum sem sveitarstjóri Blönduósbæjar. Arnar Þór var ráðinn í starfið 9. október árið 2007 í kjölfar þess að Jóna Fanney Friðriksdóttir sagði upp starfinu eftir tæp sex ár sem sveitarstjóri. Á sveitarstjórnarfundi Blönduósbæjar í gær var Arnari Þór þakkað fyrir vel unnin störf fyrir sveitarfélagið síðustu ellefu ár. Á fundinum var samþykkt að Anna Margrét Jónsdóttir verði forseti sveitarstjórnar í stað Valgarðs Hilmarssonar sem tekur við starfi sveitarstjóra 1. apríl næstkomandi.

Það var L-listinn sem gerði tillögu um Önnu Margréti sem forseta sveitarstjórnar og Zophonías Ara Lárusson sem fyrsta varaforseta sveitarstjórnar og var tillagan samþykkt mótatkvæðalaust. Þá var ráðningarsamningurinn við Valgarð kynntur og samþykktur með smávægilegum breytingum, eins og segir í fundargerð sveitarstjórnar.

Fulltrúar J-listans í bæjarstjórn, þau Oddný María Gunnarsdóttir og Hörður Ríkharðsson, lögðu fram bókun þar sem þau telja ástæðulaust að ráða sveitarstjóra. Segja þau að starfsmenn sveitarfélagsins séu fullfærir um að annast þau störf sem inna þurfi af hendi fram yfir kosningar.

​Arnar Þór hefur ráðið sig sem aðstoðarmann Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttirmálaráðherra frá og með 1. apríl næstkomandi. 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga