Fréttir | 23. mars 2018 - kl. 15:22
Eigendur SAH-Afurða fara yfir verðþróun lambafurða á næstu vikum

Eiður Gunnlaugsson, stjórnarformaður Kjarnafæðis, segir í nýjasta tölublaði Bændablaðsins sem kom út í gær, að það muni liggja fyrir í apríl eða maí hvert verðþróun lambaafurða stefni á árinu. Eins og fram hefur komið í fréttum skoraði Félag sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu á stjórn SAH-Afurða að bæta innleggjendum sauðfjárafurða upp þann mikla mun sem var á verði þeirra og annarra afurðastöðva haustið 2017. Kjarnafæði á og rekur SAH-Afurðir.

Félag sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu efndi til almenns félagsfundar í lok febrúar þar sem samþykkt var að skora á stjórn SAH-Afurða. Í samþykktinni segir að meðal verðmunur SAH-Afurða og annarra afurðastöðva hafi numið 13% síðasta haust miðað við uppbætur sem aðrar afurðastöðvar hafi greitt. Félagsmenn telja þennan mikla mun algerlega óásættanlegan. Jafnframt samþykkti fundurinn að fela stjórn félagsins að leita allra leiða til að tryggja bændum á svæðinu sambærilegt verð við aðra.

Á aðalfundi Fjárræktarfélags Sveinsstaðahrepps sem haldinn var 19. febrúar síðastliðinn var einnig samþykkt ályktun þar sem fundurinn mótmælti harðlega því verði sem SAH-Afurðir greiddu fyrir sauðfjárafurðir síðastliðið haust. Skoraði fundurinn á fyrirtækið að greiða sambærilegt verð og aðrar afurðastöðvar gera.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga