Nöldrið | 13. apríl 2018 - kl. 22:24
Aprílnöldur

Í byrjun þessa mánaðar voru haldnir sex opnir fundir til kynningar á sameiningu sveitarfélaganna í sýslunni. Það var ráðgjafafyrirtækið Ráðrík sem boðaði til fundanna og fór fundarsókn fram úr björtustu vonum. Ráðrík er í eigu þriggja kvenna og með lögheimili á Dalvík. Það var ráðið til að veita sveitastjórnum sýslunnar aðstoð og ráðgjöf vegna fyrirhugaðrar sameiningu sýslunnar. Ekki er annað hægt að segja en konurnar sem stjórnuðu fundinum hér á Blönduósi hafi gert það af röggsemi og mætt vel undirbúnar og þetta var hinn besti fundur sem rúlmlega 60 manns sóttu. Engin andmæli við sameiningu heyrði ég á þessum fundi. Kunningi minn búsettur í Húnavatnshreppi sagði þar hafa orðið hugarfarsbreytingu og taldi fleiri en áður hlynnta sameiningu og aldrei að vita hvernig kosning um hana færi þar. Hver hugur Skagstrendinga er til sameiningar, þori ég ekki að spá um. En undur og stórmerki væru það ef þeir væru orðnir jákvæðir að sameinast Blönduósingum.

Á  Blönduósfundinum var rætt um þennan viðvarandi ótta sýslunga okkar þegar ræða á um sameiningu, að Blönduós muni draga allt til sín og umræður spunnust um hvað það gæti verið sem Blönduósingar gæti dregið til sín frá samsýslungum sínum og var fátt um svör. Íbúar sem áður tilheyrði Engihlíðarhreppi og voru á fundinum létu vel af sameiningunni við Blönduós sem varð fyrir ekki svo löngu síðan og vildu ekki meina að líf þeirra hefði snúist á verri veg þrátt fyrir að tilheyra stærri einingu og létu þeir vel af sér.

Margir voru á faraldsfæti um páskana, enda veður tiltölulega rólegt og ekkert varð úr páskahretinu.  Það var gríðarleg umferð hér í gegn um bæinn þessa helgi og margir sem stoppuðu í N1. Þar með byrjaði bílastæðavandamálið sem var viðvarandi þar s.l. sumar. Margir lögðu leið sína í Tindastól á skíði og er stórkostlegt að hafa þetta fína skíðasvæði Skagfirðinga hér rétt hjá okkur og geta notið þess. En útvarpsmálin á Þverárfjalli lagast lítið. Á stórum svæðum heyrist ekkert í RÚV, útvarpi allra landsmanna, sem á að vera þetta mikla öryggistæki. Bylgjan heyrist nánast alla leiðina yfir Þverárfjall til Sauðárkróks, en RÚV er alltaf að detta út. Fyrst hélt ég að útvarpstækið í bílnum mínum væri svona lélegt, en ég hef heyrt þetta frá fleirum. Mér er sagt að sitt hvort fjarskiftafyrirtækið þjónusti þessi tvö útvarpsfélög og er annað þeirra greinilega svona mikið betra en hitt.

Þá hefur einn framboðslisti fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor litið dagsins ljós og hljóta að birtast fleiri innan skamms. Við skulum þó vona að fjöldi þeirra verði innan hóflegra marka, svo við lendum ekki í framboðsrugli eins og er orðið viðvarandi í  Reykjavík. Það sem mestu máli skiftir í svona litlu samfélagi eins og við búum í, er að heiðarlegt fólk sem vill leggja það á sig að vinna fyrir bæinn sinn bjóði sig fram og þá finnst mér ekki skipta nokkru máli hvaða flokk það kýs í alþingiskosningum, heldur að það sé tilbúið að starfa af heilindum fyrir okkur öll.

Þessi vetur hefur í mínum huga verið ótrúlega fljótur að líða og nú kemur sumarið eftir nokkra daga. Ég óska Húnvetningum öllum gleðilegs sumars og vona að það verði okkur gott og gjöfult með sæta langa sumardaga.

Með sumarkveðju, Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga