Frá Gunnfríðarstöðum. Ljósmynd: Páll Ingþór.
Frá Gunnfríðarstöðum. Ljósmynd: Páll Ingþór.
Fréttir | 15. apríl 2018 - kl. 10:21
Hrútey, útivera og skógrækt
Frá Páli Ingþóri

Vorið hljómar í eyrum okkar þessa dagana, frá fuglum, börnum að leik og auknum framkvæmdahljóðum. Í Hrútey er fólksvangur frá árinu 1975 og eitt af ákvæðum er varðar fólksvanginn er lokun eyjarinnar frá 20. apríl til 20. júní ár hvert vegna varps fugla. Í dag er snjór og klaki að hverfa úr stígum, gæsin að para sig, rjúpan á viðkomu í eyjunni, auk margra tegunda af smáfuglum. Njótið vorsins í Hrútey við holla hreyfingu.

Sjá má frekari upplýsingar um Hrútey og fleiri útivistarskóga á vefsvæðinu www.skogargatt.is. Þar er t.d. fjallað um lýðheilsu í skógum og eru Hrútey og Gunnfríðarstaðaskógur þar á lista yfir skóga með merktar gönguleiðir.

Þá má nefna að göngubrú er komin á skurð á túninu ofan leikskóla norðvestan við Heiðarbraut. Þar er hægt að ganga inn í lítinn skógarlund sem börnin okkar hafa skapað frá árinu 1999 undir heitinu Yrkja.

Mörg grenitré eru með töluvert af dauðu barri eftir sitkalúsaát árið 2017. Flest trén ná sér aftur á nokkrum árum og góðir frostakaflar í vetur, þegar frost fór niður fyrir 13 gráður, fækka í lúsastofninum og hjálpa trjánum.

Njótið vorverkana og útivistar.

Myndin er af sigurskúf og lúpínu á Gunnfríðarstöðum. Lúpínan búin að kasta fræjum sínum en sigurskúfurinn í blóma. 

Páll Ingþór
Formaður Skóg A-Hún.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga