Fréttir | 20. apríl 2018 - kl. 15:19
Hættir sem framkvæmdastjóri SSNV

Björn Líndal Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hefur sagt upp störfum hjá samtökunum. Björn var ráðinn framkvæmdastjóri SSNV í október 2015 úr hópi 16 umsækjenda en hann er borinn og barnfæddur Húnvetningur og hefur lengst af búið á Hvammstanga. Uppsögnin var rædd á fundi stjórnar SSNV á miðvikudaginn og var formanni stjórnar falið að ganga frá starfslokum Björns og leita til STRÁ starfsráðninga ehf. vegna ráðningar nýs framkvæmdastjóra. Björn hefur óskað eftir að 30. júní verði síðasti starfsdagur.

SSNV er þjónustu- og samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra og sér um mikilvæga sameiginlega málaflokka og hagsmunamál sveitarfélaga á starfssvæðinu. Verkefni SSNV eru fjölbreytt og snúa að hagsmunum svæðisins, atvinnuþróun og rekstri sameiginlegra verkefna sveitarfélaganna sem að því standa.​

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga