Fréttir | 09. maí 2018 - kl. 14:40
Blönduósbær skilar hagnaði

Síðari umræða um ársreikning Blönduósbæjar 2017 fór fram í sveitarstjórn Blönduósbæjar í gær. Samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta skilaði reksturinn jákvæðri niðurstöðu sem nemur rúmlega 22 milljónum króna. Eigið fé nam í árslok 720 milljónum og hækkaði  um 61 milljón. Skuldir og skuldbindingar námu samtals um 1.180 milljónum í árslok og lækkaði skuldahlutfallið úr 126% niður í 118%. Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða og þakkaði sveitarstjórn starfsfólki sveitarfélagsins fyrir góð störf á liðnu ári.

Rekstrartekjur Blönduósbæjar árið 2017 námu 1.000,2 m.kr. sem er 70 m.kr. hærri tekjur en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir. Tekjur samstæðunnar hækka um 17,5 m.kr. milli ára eða um 1,8%. Rekstrargjöld hækka um 51,4 m.kr. milli ára eða um 5,2%. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 54,6 m.kr. Tekin voru ný langtímalán á árinu að upphæð 70 m.kr. en afborganir langtímalána ársins námu 121,1 m.kr.

 Hörður Ríkharðsson og Oddný María Gunnarsdóttir lögðu fram bókun á fundinum þar sem segir að eignasala og stórauknar tekjur frá Jöfnunarsjóði hjálpi mikið til við rekstur sveitarfélagsins á síðasta ári. Hæpið sé að byggja rekstur sveitarfélags til langframa á slíku. Þegar borga þurfi 80 til 90 milljónir í afborganir af langtímaskuldum sjái allir að lítið sé eftir til framkvæmda þegar veltufé frá rekstri sé um 90 milljónir.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga