Fréttir | 10. maí 2018 - kl. 07:02
Rekstur SAH Afurða skilar hagnaði

Hagnaður SAH Afurða ehf. á síðasta ári nam 5,5 milljónum króna en félagið hefur verið rekið með tapi síðan 2013. Bókfært eigið fé félagsins í árslok var neikvætt um 153,2 milljónir. Velta síðasta árs nam um tveimur milljörðum króna. Gert er ráð fyrir að tap verði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Ársverk á reikningsárinu voru 52. Þetta kemur fram á vef SAH Afurða en aðalfundur félagsins var haldinn 3. maí síðastliðinn þar sem ársreikningur 2017 var samþykktur.

Á vefnum segir að það sem af er ári hafi SAH Afurði flutt út rúm 320 tonn af kindaafurðum og að allar gærur og aukaafurðir séu seldar. Gengi krónunnar hafi ekki verið hagstætt fyrir útflytjendur og verðið óásættanlegt. Þá segir að verð á lambakjöti innanlands hafi farið lækkandi vegna offramboðs og gríðarlegrar samkeppni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga