Fréttir | 13. maí 2018 - kl. 15:24
Jógvan Hansen og Pálmi Sigurhjartarson halda tónleika á Norðurlandi vestra

Jógvan Hansen og Pálmi Sigurhjartarson halda tónleika í Sjávarborg á Hvammstanga 20. maí næstkomandi og í Hólaneskirkju á Skagaströnd 21. maí. Daginn eftir halda þeir tónleika í Sauðárkrókskirkju. Á tónleikunum flytja þeir lög Jóns Sigurðssonar t.d. Ég er kominn heim, Loksins ég fann þig, Komdu í kvöld, Kvöldsigling, Vertu ekki að horfa og fleiri. Allir tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og er miðaverð 3.500 krónur. 

Jógvan segir í samtali við Húnahornið að samstarf hans og Pálma hafi byrjað árið 2010 þegar þeir, ásamt Sigurjóni Brink, settu saman jóladagskrá fyrir Hótel Sögu. „Þegar Sigurjón féll frá snemma árs 2011 tók ég við söngvarastöðu Sjonna í hljómsveitinni Rokk sem hafði starfað um hríð við góðan orðstír. Síðan þá höfum við Pálmi starfað mikið saman sem duo ásamt því að leika og syngja með fleiri listamenn innanborðs,“ segir Jógvan.

Vorið 2015 stýrði Pálmi tónleikum sem haldnir voru vegna 90 ára afmælis Jóns Sigurðssonar (1925-1992), einnig þekktur sem Jón í bankanum og voru þeir haldnir í Salnum í Kópavogi. Þar voru helstu lög og textar Jóns fluttir af hljómsveit og söngvurum. „Pálmi var þarna tónlistar- og hljómsveitarstjóri og ég var einn af aðalsöngvurum. Upp úr þessu spratt sú hugmynd hjá okkur að gaman væri að fara með þessa dagskrá um landið og deila þessum þjóðargersemum með fólki allstaðar á landinu,“ segir Jógvan og bætir við að nú sé sú hugmynd orðin að veruleika og hefst fyrsti hluti tónleikaferðarinnar „Ég er kominn heim“ 13. maí og stendur til 22. maí.

Tónleikarnir á Norðurlandi vestra:

20. maí í Sjávarborg á Hvammstanga

21. maí í Hólaneskirkju á Skagaströnd

22. maí í Sauðárkrókskirkju á Sauðárkróki

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga