Frá Húnavöllum
Frá Húnavöllum
Fréttir | 17. maí 2018 - kl. 09:27
Húnavatnshreppur skilar rekstrarafgangi

Húnavatnshreppur var rekinn með tæplega þriggja milljón króna afgangi á síðasta ári samanborið við tæplega tólf milljóna króna afgang árið 2016. Eigið fé sveitarfélagsins var 407 milljónir í árslok 2017 og skuldahlutfallið 55% en það var 43% í lok árs 2016. Miðað er við að hlutfallið sé ekki hærra en 150%. Fjárfestingar á árinu 2017 námu rúmlega 100 milljónum króna. Ljósleiðari í dreifbýli og viðhaldsverkefni á húsnæði grunnskólans og íbúðarhúsnæði á Húnavöllum voru stærstu fjárfestingarnar.

Seinni umræða um ársreikning Húnavatnshrepps fór fram á fundi sveitarstjórnar á þriðjudaginn og segir í fundargerð að staða sveitarfélagsins sé í jafnvægi þrátt fyrir stórauknar framkvæmdir, gott þjónustustig í sveitarfélaginu sem og aukinn kostnað sveitarfélaga almennt.

Fulltrúar E-listans í sveitarstjórn gerðu athugasemdir við þær umtalsverður breytingar sem urðu á ársreikningnum milli fyrri og annarrar umræðu. Við fyrri umræðu var kynnt að rekstrarniðurstaða samstæðunnar væri 16,5 milljónir en niðurstaðan í seinni umræðu er að hún er 2,7 milljónir. Þá telur E-listinn ámælisvert og villandi að halda íbúafund og kynna ársreikninga sveitarfélagsins sem að ekki eru fullfrágengnir.

A-listinn lagði einnig fram bókun en í henni segir að „vegna þeirra venju að kynna ársreikning á íbúafundi í lok apríl, byrjun maí ár hvert, hafa skapast þær aðstæður að ekki hefur verið unnt að kynna hann full frágenginn síðastliðin tvö ár.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga