Pistlar | 19. maí 2018 - kl. 09:17
Fólkið er dýrmætasta auðlindin
Eftir Rannveigu Lenu Gísladóttur

Dýrmætasta auðlind hvers samfélags, sama hversu lítið eða stórt það er, er fólkið. Samfélagið okkar hér á Blönduósi er góð blanda af öllum aldurshópum.

Stærsta verkefni þeirra sem starfa í sveitarstjórn er að búa samfélaginu umhverfi sem er vænlegt til búsetu, við þurfum að gera umhverfi okkar aðalaðandi, sérstaklega fyrir unga fólkið. Af hverju nefni ég þann hóp? Jú, flest okkar unga fólks flytur burtu til náms og samfélagið hér þarf að vera þannig að þessi hópur skili sér aftur að námi loknu og hafi tækifæri til að nýta þá menntun sem það hefur aflað sér, hafi tækifær til að eignast húsnæði og eiga hér bjarta framtíð.

Til þess að slíkt sé hægt þá þarf sveitarfélagið að skapa aðstæður fyrir fjölbreytt og öflugt atvinnulíf, slíkt er einfaldlega forsenda velferðar og lífsgæða.

Við þurfum að hlúa vel að öllum skólastigum til að mennta yngstu íbúana og undirbúa þá fyrir frekara nám, hvort sem er, hér í heimabyggð eða annarstaðar.

Verkefni í rekstri sveitarfélags eru ótal mörg og málaflokkar margir. Sum þeirra umfangsmikil og kostnaðarsöm, önnur smærri og minni tilkostnaðar. Það þýðir þó ekki að slík verkefni séu eitthvað ómerkilegri. Sveitarstjórnarmenn þurfa að vanda vel til verka, alveg sama hvert verkefnið er sem unnið er að.

Einhvern tímann las ég „enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað.“ Að mínu mati á það vel við í sveitarstjórnarmálum. Frambjóðendur L-listans eru mjög fjölbreyttur hópur með víðtæka reynslu og menntun. Öll höfum við mismunandi áhugamál og á okkur brenna mismunandi hlutir. Eitt eigum við þó öll sameiginlegt... óbilandi trú á samfélaginu okkar og viljum leggja okkar af mörkum til að byggja samfélagið upp og gera Blönduós að enn betri stað.

Sjálf hef ég sérstakan áhuga á því að vinna að vandaðri stjórnsýslu. Ég vil meðal annars vinna að því að bókhald sveitarfélagsins verði opnað íbúum þess. Fjármál sveitarfélagsins eiga ekki að vera eitthvað leyndarmál sem er opinberað eingöngu einu sinni á ári með birtingu ársreiknings. Einnig mun ég beita mér fyrir því, verði ég kjörin til starfa í sveitarstjórn, að sveitarfélagið setji sér reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum sveitarstjórnarmanna. Slíkri skráningu væri ætlað að auka gagnsæi í störfum kjörinnar fulltrúa. 

Gott samfélag er samstarfsverkefni allra sem því tilheyra. Auka þarf þátttöku íbúa þegar kemur að stjórnsýslunni. Heimasíða sveitarfélagsins þarf að vera aðgengileg og lifandi. Skýrsla sveitarstjóra um störf hans mætti birta reglulega, auglýsa þarf fundi sveitarstjórnar og birta allar fundargerðir eins fljótt og hægt er eftir að fundi líkur. Fordæmi sem nágrannar okkar í Húnavatnshreppi hafa sett með íbúafundi á hverju ári er eitthvað sem við eigum að mínu mati að taka upp. Slíkur fundur er góð leið til að upplýsa íbúana um stöðu sveitarfélagsins og skapa vettvang fyrir íbúana til að ræða við sveitarstjórn um málefni sem á þeim brenna.

Atvinnumál er einnig sérstakt áhugamál hjá mér. Sveitarfélagið þarf að skapa góðar aðstæður fyrir fyrirtæki sem vilja starfa á svæðinu. Við þurfum að laða til okkar nýja atvinnustarfsemi, ma til að aukna fjölbreytni í atvinnulífinu. Til að slíkt sé mögulegt þá þarf samfélagið að bjóða hér uppá aðstæður sem að fyrirtæki sækjast eftir.

En af hverju býð ég mig fram?  Hvað fær mig til að standa í þessu?

Við því er í rauninni bara eitt og að mínu mati einfalt svar sem þó á sér örlitla forsögu og þarfnast útskýringar.  Ég hef í nokkur ár gert talsvert af því að ferðast um heiminn.  Fyrir nokkrum árum, eftir eina ferð mína út fyrir landsteinana, var ég á heimleið, akandi norður. Þegar að ég ók framhjá afleggjaranum að flugvellinum, niður brekkuna og ofan í bæinn varð ég að stoppa. Ég staldraði í dágóða stund við bæjarmerkið okkar og horfði yfir bæinn og fylltist svo sterkri tilfinningu og vellíðan, ég var komin HEIM! Heim þar sem mér líður svo vel, í umhverfið sem ég kann svo vel við og eg hlakkaði bara til tímans framundan. Á þessum tímapunkti sá ég svo sterkt að Blönduós er mitt HEIMA og hér vil ég búa. Ég vil leggja mitt af mörkum til að gera samfélagið enn betra og þess vegna býð ég mig fram til starfa í sveitarstjórn. Ég með minn bakgrunn og reynslu í rekstri, þekkingu á starfsemi sveitarfélags sem ég öðlaðist við störf mín fyrir Húnavatnshrepp, og með þá menntun sem ég hef aflað mér, þá tel ég mig hafa töluvert fram að færa.

Kæru kjósendur, allir sem einn, takk fyrir að vera partur af samfélaginu okkar. Takk fyrir að setja X við L á kjördag.

Rannveig Lena Gísladóttir
2. sæti L-LISTANS

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga