Anna Margret og Guðmundur Haukur.
Anna Margret og Guðmundur Haukur.
Fréttir | 22. maí 2018 - kl. 14:17
Atvinnu- og húsnæðismál brýnust

Á ágætum kosningavef Ríkisútvarpsins er rætt við oddvita flokkanna tveggja á Blönduósi sem bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum um næstu helgi. Að þeirra mati eru atvinnu- og húsnæðismál meðal brýnustu verkefna á Blönduósi. Anna Margret Sigurðardóttir oddviti Óslistans, sem býður nú fram í fyrsta sinni, segir brýnt að halda í þau fyrirtæki sem eru í bænum og sömuleiðis að laða ný fyrirtæki þangað. Blönduós sé þjónustukjarni fyrir dreifbýlið og minni byggðakjarna á svæðinu.

„Hér eru því ekki stórir atvinnurekendur, heldur margir minni sem þurfa hver á öðrum að halda til að samfélagið blómstri. Það er spennandi að bærinn laði til sín fleiri minni og meðalstór fyrirtæki þannig að það skapist gott jafnvægi,“ segir Anna Margrét í samtali við Ríkisútvarpið og bætir við að eitt af þeim verkefnum sem sveitarfélagið þarf að sinna er að hafa álitlegar lóðir fyrir húsnæði og hvata fyrir fólk til að byggja.

Guðmundur Haukur Jakobsson oddviti L-Listans, sem býður nú fram í þriðja sinn og er í meirihluta í sveitarstjórn í dag, segir Blönduósbæ vera að vaxa og fólki að fjölga þar aftur. Hann segir að fjölga þurfi byggingalóðum og huga að atvinnumálum. „Við erum með tilbúnar byggingarlóðir. Þær eru ókeypis fyrir utan gatnagerðargjöld, þetta eru ívilnanir sem við tókum upp á þessu kjörtímabili,“ segir Guðmundur Haukur. Þá nefnir hann að fyrsta skóflustungan að gagnaveri á Blönduósi verði tekin á miðvikudaginn og sé það mikill áfangi enda hafi verið unnið að því í mörg ár. Hann segir helstu stefnumálin vera að halda áfram þeirri miklu uppbyggingu sem verið hefur í sveitarfélaginu.

Anna Margret og og Guðmundur Haukur segjast bæði vera hlynnt sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Lesa má nánar viðtölin við þau á kosningavef Ríkisútvarpsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga