Fréttir | 26. maí 2018 - kl. 10:04
Sveitarstjórnarkosningar í dag

Kosið er til sveitarstjórna á landinu í dag og opna flestir kjörfundir í Húnavatnssýslum klukkan 10:00. Níu listar bjóða fram í Húnavatnssýslunum tveimur og á þeim eru 118 frambjóðendur. Í Skagabyggð eru engir framboðslistar og fer þar fram óbundin kosning eða persónukjör. Á Blönduósi eru tveir listar í framboði, L-listi Listi fólksins og Ó-listi Óslistinn. Á Skagaströnd eru tveir listar í framboði, Ð-listi Við öll og H-listi Skagastrandarlistinn. Í Húnavatnshreppi eru þrjú framboð, A-listi Listi framtíðar í Húnavatnshreppi, E-listi Nýtt af í Húnavatnshreppi og N-listi Nýtt framboð í Húnavatnshreppi.

Í Húnaþingi vestra eru tveir listar í framboði en það eru B-listi Framsóknarflokkurinn og aðrir framfarasinnar í Húnaþingi vestra og N-listi Nýtt afl í Húnaþingi vestra. Bæði framboðin buðu fram í síðustu kosningum. B-listinn teflir fram nýju oddvitaefni, Þorleifi Karli Eggertssyni en Elín R. Líndal leiddi listann síðast og er hún í heiðurssæti núna. N-listinn teflir einnig fram nýjum oddvita, Magnúsi Magnússyni. Unnur Valborg Hilmarsdóttir núverandi oddviti situr í heiðurssætinu. 

Á Blönduósi býður L-listinn fram í þriðja sinn og er Guðmundur Haukur Jakobsson formaður byggðaráðs oddviti listans að þessu sinni.  Óslistinn er nýr en þar er Anna Margret Sigurðardóttir í oddvita sæti. Báðir listarnir á Skagaströnd buðu fram síðast. Guðmundur Egill Erlendsson er oddviti Ð-listans og Halldór G. Ólafsson tók við oddvitasætinu á H-listanum af Adolf H. Berndsen sem hættir í sveitarstjórn eftir að hafa verið oddviti frá árinu 1994.

Í Húnavatnshreppi býður A-listi fram að nýju með nýjan oddvita, Jón Gíslason. E-listi Nýs afls býður einnig áfram með sama oddvita áfram, Þóru Sverrisdóttir. Þá hefur nýtt framboð litið dagsins ljós, N-listinn en Ragnhildur Haraldsdóttir leiðir listann.

Kjörfundur í Sveitarfélaginu Skagaströnd fer fram í Fellsborg og hefst klukkan 10:00 og lýkur klukkan 21:00. Talning atkvæða verður á sama stað og gæti hafist um kl. 21.30.

Kjörfundur á Blönduósi hefst klukkan 10:00 í Íþróttamiðstöðinni í norðursal og er inngangur á móts við Kjörbúðina. Kjörfundi lýkur klukkan 22:00. Búast má við lokatölum eftir klukkan 23:00.

Í Húnavatnshreppi fer kjörfundur fram í Húnavallaskóla og hefst klukkan 11:00 en stefnt er að því að honum ljúki klukkan 19:00. Reiknað er með að talning atkvæða hefjist klukkan 21:00.

Í Húnaþingi vestra opnaði kjörfundur í Félagsheimilinu á Hvammstanga klukkan 9:00 í morgun og stendur hann til 22:00. Opin talning atkvæða verður í Félagsheimilinu Hvammstanga klukkan 22:30 og eru allir velkomnir.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga