Fréttir | 09. júní 2018 - kl. 08:43
Prjónað af gleði í tilefni fullveldis Íslands

Kæru Húnvetningar og nærsveitamenn.

Í gær gekk í garð þriðja Prjónagleðin og í ár er þemað 100 ára afmæli fullveldissins Íslands.

Fyrr á öldum var framleitt mikið af prjónlesi hér í sveitum til útflutnings og allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu. En nú er öldin önnur og þeir sem prjóna, prjóna oftast mest vegna gleðinnar sem fylgir prjónaskapnum en á opnunarhátíðinni verður einmitt haldinn fyrirlestur þar sem spurt er hvort prjón sé hamingjuaukandi

Textílsetrið í samvinnu við börn og starfsfólk grunnskólanna á svæðinu tók þátt í Fullveldisafmælishátíðarhöldum með því að prjóna búta í teppi sem búið er að setja saman og eru til sýnis í Félagsheimilinu og verða síðan til sýnis í Leifsstöð.

Skólarnir sem tóku þátt eru Blönduskóli, Húnavallaskóli og Höfðaskóli og vonumst við til að  nemendur, starfsfólk og foreldrar komi og sjá afraksturinn af prjóninu.

Í kvöld, við hátíðarkvöldverðinn mun forsetafrúin okkar, frú Eliza Reid afhenda þeim verðlaun sem vinna samkeppnina um fullveldispeysuna.

Námskeið og fyrirlestrar eru í boði bæði laugardag og sunnudag og ennþá nokkur sæti laus.

Markaðurinn í félagsheimilinu verður opinn í dag laugardag frá klukkan 10-18 og sunnudag frá klukkan 10-14.

Þar geta gestir líka skoðað allar peysurnar sem bárust í samkeppninni um fullveldispeysuna.

Allar nánari upplýsingar um Prjónagleðina má finna á vefsíðu hátíðarinnar: https://prjonagledi.is.

Verið hjartanlega velkomin, fyrir hönd Textílsetursins og Prjónagleðinnar,

Jóhanna Erla Pálmadóttir

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga