Fréttir | 12. júní 2018 - kl. 09:45
Ásgeir Trausti kynnir nýja plötu í sumar

Húnvetningurinn Ásgeir Trausti ætlar að fara í tónleikaferðalag hringinn í kringum landið í sumar og kynna nýja plötu. Ferðalagið byrjar 17. júlí í Bæjarbíói í Hafnarfirði og endar 1. ágúst í Frystiklefanum á Rifi. Alls verða tónleikar á fjórtán stöðum á sextán dögum. Ásgeir Trausti spilar fyrir Húnvetninga á Eldi í Húnaþingi, bæjarhátíðinni í Húnaþingi vestra, 29. júlí og fara tónleikarnir fram í Ásbyrgi á Laugarbakka.

Í Fréttablaðinu í gær kom fram hjá Ásgeiri Trausta að tónleikarnir verða mjög lágstemmdir. „Hugmyndin sé sú að fara þarna með tvo kassagítara - þetta verðum við Júlíus, gítarleikari og bakraddasöngvari, en við höfum oft tekið þessa uppstillingu áður og erum því nokkuð vanir. En við höfum aldrei gert eiginlegan túr úr því, þannig að þetta er í fyrsta skiptið sem við gerum það,“ segir Ásgeir Trausti í samtali við Fréttablaðið í gær.

Ásgeir Trausti gaf síðast út plötu, After­glow, árið 2017 og þá á ensku en síðustu tvær plötur hafa verið á á ensku. Þetta er þá fyrsta plata Ásgeirs síðan 2012 sem er á íslensku en þá gaf hann út plötuna Dýrð í dauðaþögn sem sló svo rækilega í gegn.

​Sjá nánar um tónleika Ásgeirs Trausta á Eldi í Húnaþingi hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga