Pistlar | 12. júní 2018 - kl. 13:28
Rekstur Trésmiðjunnar Stíganda skilar afgangi
Eftir Guðmund Arnar Sigurjónsson

Hagnaður varð á rekstri Trésmiðjunnar Stíganda ehf. á árinu 2017 og var hann svipaður og árið 2016. Einnig er eignfjárstaða fyrirtækisins góð og skuldir mjög litlar.  

Stígandi ehf. var stofnaður 1. maí 1947 af Kristjáni Gunnarssyni og er því í hópi elstu byggingafyrirtækja landsins. Kristján rak fyrirtækið fram til áramótanna 1975-1976 en þá tók sonur hans, Hilmar Kristjánsson, við og gengdi hann því starfi til æviloka.

Eins og flestir vita þá fór þetta gamalgróna fyrirtæki í gegnum breytingar haustið 2014, en þá tóku núverandi rekstraraðilar við. Við vorum ákveðnir í því að missa ekki þessa starfsemi úr bænum og með öflugu baklandi í Ámundakinn ehf. og Kaupfélagi Skagfirðinga höfum við náð að halda hjólunum gangandi og erum farnir að sjá fram á að hafa nóg að gera í náinni framtíð.

Síðasta ár var mjög gott hvað verkefnastöðu varðar, við byrjuðum árið á Pósthúsinu, en það var tekið vel í gegn í byrjun síðasta árs, sem og N1 skálinn sem fékk líka smá andlitslyftingu. Á vormánuðum byggðum við sumarhús sem flutt var yfir í Húnaþing vestra. Í júní var hafist handa við reisa hús fyrir mjólkurbíla MS, en það er núna á lokametrunum.

Trésmiðjan Stígandi ehf. býr einnig yfir vel búnu innréttingaverkstæði, en þar sérsmíðum við innréttingar í öllum stærðum og gerðum, sem og innihurðum, tréstigum og líkkistum. Í fyrra fjárfestum við í nýrri þykktarpússvél frá Iðnvélum, en hún hefur verið mikil bót fyrir verkstæðið.

Við erum bjartsýnir á framtíðina, sérstaklega í ljósi þess að núna hyllir undir það að huga þurfi að meiri húsbyggingum hér á svæðinu, bæði atvinnuhúsnæði sem og íbúðarhúsum, og erum við tilbúnir að leggja okkar að mörkum í þeim málum.

Í dag eru starfsmenn fyrirtækisins 16 talsins, allflestir hoknir af reynslu en núna vinnum við í því að yngja upp mannskapinn og erum með tvo nema á samning hjá okkur.

Guðmundur Arnar Sigurjónsson
​Framkvæmdarstjóri

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga