Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Fréttir | 22. júní 2018 - kl. 17:33
Blönduósbær leitar að sveitarstjóra

Blönduósbær auglýsir á vef sveitarfélagsins eftir öflugum einstaklingi til að taka við starfi sveitarstjóra. Leitað er að jákvæðum, heiðarlegum og kraftmiklum einstaklingi sem er reiðubúinn til að leggja sig allan fram í krefjandi starfi. Viðkomandi þarf að búa yfir góðri reynslu af því að starfa með fólki og þarf einnig að eiga auðvelt með samskipti fyrir hönd sveitarfélagsins og að vera talsmaður þess, hvort sem er í samskiptum við opinbera stjórnsýslu, viðskiptavini, íbúa eða fjölmiðla.

Sveitarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og sér um framkvæmd ákvarðana sem teknar eru af sveitarstjórn og byggðaráði. Sveitarstjóri skipuleggur og undirbýr dagskrá funda, situr fundi sveitarstjórnar, byggðaráðs og annarra nefnda eftir atvikum og hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Hann leiðir atvinnuuppbyggingu og eflingu atvinnulífs á svæðinu og önnur verk sem honum kunna að vera falin.

Menntunar- og hæfniskröfur eru m.a. menntun og reynsla sem nýtist í starfi, farsæl reynsla af stjórnun, rekstri og samskiptum, þekking og reynsla af sveitarstjórnarmálum, góðir skipulagshæfileikar, frumkvæði og leiðtogahæfileikar.

Umsókn um starfið þarf að fylgja ítarleg starfsferlisskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.

Umsóknarfrestur er til og með 2. júlí næstkomandi.

Nánari upplýsingar um starfið veita Guðmundur H. Jakobsson formaður byggðaráðs í síma 898 8489 og Rannveig Lena Gísladóttir forseti sveitarstjórnar í síma 893 0816.

Umsókn skal skilað rafrænt á netfangið sveitarstjori@blonduos.is.

Sjá nánar um starfið á vef Blönduósbæjar.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga