Fréttir | 10. júlí 2018 - kl. 09:28
Grettissaga Einars Kárasonar

Einar Kárason mun stíga á stokk í Félagsheimilinu á Blönduósi 17. júlí næstkomandi og flytja eina vinsælustu Íslendingasöguna, söguna um ógæfumanninn Gretti Ásmundsson. Einar setur söguna á sinn einstaka hátt upp í fræðandi og skemmtilega frásögn, þar sem Grettir og það helsta sem á daga hans dreif kviknar til lífsins. Einar er með virtustu rithöfundum og rómuðustu sagnamönnum landsins og hafa sýningar hans um Grettissögu notið mikilla vinsælda í Landnámssetrinu í Borgarnesi.

Grettir Ásmundsson var Húnvetningur og ætti því að vera heimamönnum velkunnugur en hann ólst upp að Bjargi í Miðfirði, glímdi við drauginn Glám í Forsæludal og lauk ævinni í Drangey í Skagafirði.

Sýningin fer fram eins og áður sagði í Félagsheimilinu á Blönduósi klukkan 20-22. Miðaverð er kr. 3.500 og kr. 3.000 fyrir eldri borgara, börn og hópa sem telja fleiri en 10.

Miðapantanir á info@manino.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga