Önnur súlan með prjónaða teppinu í Leifsstöð. Ljósm: Berglind Björnsdóttir
Önnur súlan með prjónaða teppinu í Leifsstöð. Ljósm: Berglind Björnsdóttir
Hópurinn sem fór suður. Á myndina vantar Jóhönnu E. Pálmadóttur
Hópurinn sem fór suður. Á myndina vantar Jóhönnu E. Pálmadóttur
Fréttir | 04. júlí 2018 - kl. 20:44
Glæsileg teppi úr Húnaþingi sett upp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Nokkrir nemendur og starfsfólk Blönduskóla, Húnavallaskóla og Höfðaskóla lögðu land undir fót í morgunsárið suður til Keflavíkurvallar til að setja upp teppi sem voru prjónuð á vordögum, stykki í fánalitunum sem nemendur Concordia háskólans í Kanada, er dvöldu í Kvennaskólanum í júní, aðstoðuðu við að sauma saman í ljómandi fín teppi ásamt fleira góðu fólki.

Teppi þessi voru svo höfð til sýnis á Prjónagleðinni sem haldin var hér á Blönduósi í byrjun júní. Markmiðið með prjónaskapnum var þó ekki einungis að búa til sýningargripi fyrir Prjónagleðina, heldur voru stykkin prjónuð í tilefni af 100 ára fullveldi Íslands og var þeim ætlaður staður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, að ósk Isavia.

Það er ekki annað að sjá en að vel hafi tekist til við prjónaskapinn og vonandi eiga stykkin eftir að vekja verðskuldaða athygli þeirra sem um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fara næstu vikurnar.

Sjá má umfjöllun um uppsetningu teppana á vef Ríkisútvarpsins http://www.ruv.is/frett/prjonad-a-sulur-flugstodvarinnar.

 

 

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga