Fréttir | 13. júlí 2018 - kl. 15:15
Minnihlutinn sat hjá við afgreiðslu ráðningarsamnings nýs sveitarstjóra Blönduósbæjar

Ekki var einhugur á fundi sveitarstjórn Blönduósbæjar í gær þegar fjallað var um ráðningu nýs sveitarstjóra. Ástæðan var ekki neikvæð afstaða til sveitarstjórans sjálfs heldur ráðningarferlið. Óslistinn, sem er í minni hluta í sveitarstjórn, taldi aðkomu sína að ráðningarferlinu hafa verið takmarkaða, þrátt fyrir ríkan og yfirlýstan vilja til samstarfs við fulltrúa meirihlutans, L-listans. Afstaðan olli meirihlutanum vonbrigðum.

Rannveig Lena Gísladóttir, forseti sveitarstjórnar, kynnti ráðningarsamninginn við Valdimar O Hermannsson, nýjan sveitarstjóra Blönduósbæjar, á fundinum og var hann borinn undir atkvæði. Meirihlutinn samþykkti samninginn en minnihlutinn sat hjá og lét færa eftirfarandi til bókar:

„Vegna takmarkaðrar aðkomu sinnar að ráðningarferli því er liggur til grundvallar framlögðum drögum að ráðningarsamningi við nýjan sveitarstjóra Blönduósbæjar, þrátt fyrir ríkan og yfirlýstan vilja til samstarfs við fulltrúa meirihlutans, telja fulltrúar Óslistans sé nauðugur sá kostur að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um málið.“

Vegna bókunar minnihlutans lagði meirihlutinn fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar Óslistans tóku þátt í viðtali við umsækjanda og á síðasta fundi sveitarstjórnar var samþykkt samhljóða að vinna áfram að viðræðum við tiltekinn aðila. Sami fulltrúi Óslistans tók þátt í ferlinu að hluta með öflun meðmæla. Fulltrúar L-listans lýsa yfir vonbrigðum með að Óslistinn skuli ekki staðfesta framlagðan ráðningarsamning.“

Í kjölfarið lagði minnihlutinn fram aðra bókun sem er þessi:

„Líkt og fundargerð 54. fundar sveitarstjórnar Blönduósbæjar ber með sér var þar bókað um afgreiðslu málsins að sveitarstjórn myndi halda áfram að vinna að málinu og fara yfir umsóknir umsækjenda. Vissulega var fulltrúum Óslistans boðið að vera viðstaddir atvinnuviðtal við einn úr hópi umsækjenda, eftir að tímasetning þess viðtals hafði verið ákveðin, en Óslistinn hafði að öðru leyti litla sem enga aðkomu að mati á umsækjendum, því hverjir skyldu boðaðir til viðtals né undirbúningi ráðningarsamnings. Telja fulltrúar Óslistans afstöðu sína til málsins eðlilega í ljósi þessa en í henni felst hins vegar ekki neikvæð afstaða til nýráðins sveitarstjóra.“

Að lokum bar forseti sveitarstjórnar upp tillögu um að skrifað yrði undir ráðningarsamning við Valdimar og var hún samþykkt með fjórum atkvæðum meirihlutans gegn þremur atkvæðum minnihlutans. Nýr sveitarstjóri var síðan boðinn velkominn til starfa.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga