Það verður líf og fjör á Húnavöku.
Það verður líf og fjör á Húnavöku.
Fréttir | 18. júlí 2018 - kl. 15:53
Allir eru velkomnir á Húnavöku

Húnavaka, bæjarhátíð Blönduósinga, verður haldin í 15 sinn nú um helgina. Hátíðin hét áður Matur og menning og var fyrst haldin árið 2003. Árið 2006 var ákveðið að breyta nafni hátíðarinnar og endurvekja hið góða og gilda nafn Húnavaka sem áratugum saman var fastur liður í menningarlífi Húnvetninga. Valgarður Hilmarsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, býður alla velkomna til Blönduóss um helgina til að njóta vel þeirrar dagskrár sem boðið verður upp á.

Hann segir það vera ánægjulegt að hitta brottflutta Blönduósinga sem eru sérlega duglegir að heimsækja Húnavöku og rifja upp gömul kynni. Þá komi ferðamenn við og dvelji á Blönduósi yfir helgina og bærinn iði allur af mannlífi og gleði. „Íbúar Blönduóss hafa verið duglegir að skreyta hús sín og lóðir og verður það vonandi með líkum hætti í ár,“ segir Valgarður.

Dagskrá Húnavöku verður fjölbreytt að vanda og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. „Margt verður í boði, víða verður opið hús hjá fyrirtækjum og verða þau með Húnavökutilboð á völdum vörum. Söfnin okkar og setur taka á móti gestum, bókamarkaður, orgeltónleikar, fótboltaleikur, útsýnisflug, fjölskyldudagskrá, Blönduhlaup, kvöldvaka og dansleikir og fleira og fleira,“ segir Valgarður og vill um leið þakka öllum sem komið hafa að undirbúningi og skipulagningu hátíðarinnar. Hann vonar að hún verði sem ánægjulegust fyrir alla og allir komist heilir heim.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga