Fréttir | 27. júlí 2018 - kl. 13:15
Hjólreiðafólk í hrakningum á Arnarvatnsheiði

Félagar úr björgunarsveitinni Húnum á Hvammstanga voru kallaðir út í gærkvöldi vegna hjólreiðafólks sem lenti í hrakningum á Arnarvatnsheiði. Fólkið, sem var bandarískt, þrjár konur og einn karl, var blautt og kalt þegar björgunarmenn náðu til þeirra um klukkan eitt í nótt, þremur tímum eftir að þeir lögðu af stað frá Hvammstanga.

Vel gekk að finna fólkið þar sem þau höfðu gefið Neyðarlínunni upp nákvæma staðsetningu sína en leiðin var seinfarin. Fólkið hafði tjaldað við Ólafsvörður, langt inni á Stórasandi, austan við Arnarvatn og norðan Langjökuls. Lítið gagn var orðið í tjaldinu sem var gegnblautt, eins og fólkið sjálft.

„Það amaði svo sem ekkert að þeim annað en kuldinn og vosbúðin, en þau treystu sér einfaldlega ekki til að fara lengra," sagði Gunnar í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins skömmu fyrir tvö í nótt. Hann segir hjólafólkið hafa verið ágætlega búið, en leiðin inn á Stórasand sé einfaldlega enginn hjólastígur og veður þar að auki rysjótt mjög fram eftir kvöldi.

Það tók smá tíma að taka sundur reiðhjólin svo hægt væri að koma þeim fyrir í bílunum frekar en að skilja þau eftir á heiðinni, sagði Gunnar í samtali við Ríkisútvarpið, en svo var lagt af stað til byggða á hlýjum vind- og vatnsheldum jeppunum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga