Við Hraungarða. Ljósm: FB/M“/Hjördís.
Við Hraungarða. Ljósm: FB/M“/Hjördís.
Magnús “lafsson. Ljósm: FB/M“.
Magnús “lafsson. Ljósm: FB/M“.
Verið að leggja af stað fram Skútaeyrar. Ljósm: FB/M“.
Verið að leggja af stað fram Skútaeyrar. Ljósm: FB/M“.
Komið í Fljótstungurétt. Ljósm: FB/M“.
Komið í Fljótstungurétt. Ljósm: FB/M“.
Fréttir | 31. júlí 2018 - kl. 02:53
Riðið með erlenda gesti úr Vatnsdal í Álftakrók

Í lok júní og fyrri hluta júlí fóru Haukur Suska Garðarsson, ferðaþjónustubóndi að Hvammi í Vatnsdal og Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum að ríða með erlenda gesti úr Vatnsdal suður á Þingvöll og annan hóp aftur norður. Rétt áður en lagt var að stað fengu þeir félagar fregnir af því að ófært væri að koma vistum í Haugakvíslaskála á Víðidalstunguheiði vegna aurbleytu en þar var fyrirhugað að hafa næturdvöl á leiðinni suður. Var þá tekin ákvörðun að ríða með gestina í Álftakrók við Norðlingafljót í einum áfanga.

Magnús Ólafsson segir frá þessu á Facebook síðu sinni og látum hann hafa orðið:

Í lok júní kom ég ríðandi fram að Hvammi. Var að leggja í ferð með Hauk ferðaþjónustubónda þar á bæ suður yfir heiðar og ætlaði að ríða með honum suður á Þingvöll og aftur norður. Haukur var í símanum þegar ég kom í hesthúsið alvarlegur á svip. Kom síðar í ljós að hann var að fá fregnir af því að ófært væri að koma vistum í Haugakvíslaskála á Víðidalstunguheiði. Þangað væri engin leið að komast á bíl vegna aurbleytu. Þar var fyrirhugað að hafa næturdvöl á leiðinni suður. Nú var vandi á höndum og tókum við góða umræðu um hvað unnt væri að gera. Erlendu gestirnir voru væntanlegir næsta dag og þá átti að leggja af stað. Margar hugmyndir um lausn á vandanum voru skoðaðar og ýmsir ráðgjafar til kallaðir.

Eftir miklar pælingar fram eftir kvöldi og eftir að hafa skoðað alla kosti í stöðunni varð niðurstaða að engin leið væri önnur en sú að leggja í það ævintýri að láta fólkið ríða í áfanga frá Haukagili í Vatnsdal og alla leið suður í Álftakrók við Norðlingafljót. Þangað var áætlað að fara á tveimur dögum, enda er leiðin um 75 km löng. Auðvitað er hægt fyrir öfluga reiðmenn með marga hesta að ríða slíkan áfanga, en mikil spurning hvernig gengi með hóp erlendra gesta. Þó öllum hafi verið sagt að í þessa ferð mættu ekki aðrir bóka sig en fólk með mikla reynslu af ferðalögum, þá vissum við að stundum mætir fólk sem telur sig með mikla reynslu, en hún er í raun minni en þeir telja.

Næsta dag mættu gestirnir og fyrsti dagur var nýttur til að kanna getu reiðmannanna og riðið var fram að Haukagili. Samhliða var útbúnaður aukinn og allar járningar yfirfarnar enn einu sinni. Alls voru í hópnum 22 gestir, 6 starfsmenn ríðandi og nokkuð yfir 100 hestar. Enginn vissi hversu mikil aurbleyta væri á heiðunum, en við vonuðum það besta, en óttuðumst það versta. Í blíðskaparveðri var síðan lagt á heiðina og var fyrsti áfangi upp með Álku. Það var fallegt að ríða upp með gilinu og fram Skútaeyrar. Síðan var stefnan tekin vestur Hraungarða. Þessi leið var ágæt yfirferðar og alveg viðunandi þur.

Þegar vestur um heiðamót Haukagils og Víðidalstunguheiða byrjaði að kárna gaman. Á holtnum austan við norðari Haugakvísl var mikil aurbleyta. Fyrstu hestar gengu þokkalega yfir og fláarjaðrar voru greiðfærir, en þegar fleiri en tveir hestar fóru í sporaslóð á holtunum fóru þeir að vaða i og víða var umbrotafærð. Allir gestirnir voru komnir af baki og teymdu sína hesta, við starfsmenn beindum lausu hestunum niður að kvíslinni. Þar tókst að koma þeim í einn hóp og setja streng kringum hópinn. Þarna var áð góða stund og fólk fékk sér nesti og gestum var úthlutaður nýr hestur og við starfsmenn höfðum einnig hestaskipti.

Ég tók að mér að ríða upp slóðina upp á holt vestan við kvíslina til að kanna leiðina. Sú leið virtist mér þokkalega þur og hélt hópurinn því af stað. En þar fór á sömu leið, eftir að lausu hestarnir höfðu farið yfir var ófært í þeirra slóð. Reynt var að fara upp holtið til hliðar við þá leið sem lausu hestarnir fóru og tókst að komast þar yfir án mikilla áfalla. Fljótlega var komið á veginn fram Víðidalstunguheiði og veginum fylgt eftir það. Víða var aurbleitan það mikil að hestar sluppu í og oftar en ekki þurftu reiðmenn að fara af baki til að auðvelda hestunum för. Á nokkrum stöðum var skárra að ríða nokkuð til hliðar við veginn, einkum þegar unnt var að komast í fláarjaðra.

Mörgum gestanna þóttum við vera frekar harðir við hestana þar sem þeir latari voru orðnir þungstígir þegar leið á daginn. Áfram var þó haldið og þegar kom að Fellaskála voru hestarnir settir í hólfið við skálann og menn og hestar hvíldust góða stund. Nesti var tekið upp og gestum hælt fyrir dugnaðinn, enda veitti ekki af að herða menn upp fyrir næstu átök. Þarna var komið fram á kvöld. Sumir fengu sér smá blund í skálanum meðan Haukur og fleiri skipulögðu hvaða hest hver gestur fengi í næsta áfanga. Gerðar voru ráðstafanir til þess að tveir jeppar kæmu upp að Skammá milli Réttarvatns og Arnarvatns þegar við áætluðum að koma þangað. Þangað var bílfært neðan úr Borgarfirði og trússbíll okkar kominn í Álftakrók og kom snillingurinn Haukur á Röðli akandi upp að Skammá. Eiríkur veiðivörður við Arnarvatn tók líka að sér að leggja okkur lið og kom uppeftir á jeppa sínum. Allir gestirnir, 22 að tölu, voru síðan ferjaðir niður í Álftakrók og komust þangað fyrir eða skömmu eftir miðnætti. Fengu góðan kvöldverð og langþráða hvíld. Við starfsmennirnir rákum hrossahópinn niður eftir og gekk það vel, þó seint væri matast þetta kvöld.

Næsta dag var lífinu tekið af ró í Álftakrók og gestum sýnt hvaða þrekvirki þeir höfðu unnið. Lagt var á og riðinn skemmtilegur hringur í nágrenni skálans. Eftir yfirferð á járningum kom í ljós að ekki svo mikið sem ein skreifa hafði tínst frá því farið var upp úr Vatnsdal og alla leið í Álftakrók. Verður það að teljast mjög gott miðað við færð. Næsta dag var riðið niður með Norðlingafljóti og í Þorvaldsstaði. Enn var frábært veður og fréttum við þann dag að þetta var fyrsti þurri dagurinn í Borgarfirði í langan tíma. Næstu daga var haldið áfram á Þingvöll og síðan norður aftur. En það er efni í aðra sögu, sem hugsanlega verður skráð síðar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga