Björn Líndal Traustason.
Björn Líndal Traustason.
Fréttir | 01. ágúst 2018 - kl. 17:45
Björn Líndal nýr sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Strandamanna

Stjórn Sparisjóðs Strandamanna hefur ráðið Björn Líndal Traustason í starf sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Strandamanna. Björn Líndal er fráfarandi framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, en hann starfaði áður hjá Sparisjóði Húnaþings og Stranda og síðar hjá Landsbanka Íslands. Björn Líndal er með Bs. gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst og Ma. gráðu í skattarétti og reikningsskilum frá Háskóla Íslands. Björn tók við starfinu af Guðmundi Björgvin Magnússyni í dag.

„Sparisjóður Strandamanna hefur starfað frá árinu 1891 og er því 127 ára. Það eru ekki mörg fyrirtæki á Íslandi sem hafa átt svo langa og farsæla sögu. Ég tek við afar góðu búi þar sem sparisjóðurinn hefur eflst mjög á undanförnum áru og finn til mikillar ábyrgðar og auðmýktar gagnvart starfinu og sögu Sparisjóðsins,“ segir Björn Líndal í tilkynningu. Heildareignir Sparisjóðsins skv. ársreikningi eru tæplega  3.750 milljónir króna og eigið fé um 350 milljónir króna. Stofnfjáreigendur eru 103.

Sparisjóður Kirkjubóls- og Fellshreppa var stofnaður þann 19. janúar árið 1891 en nafni hans var breytt í Sparisjóð Strandamanna árið 1995. Árið 1999 sameinaðist svo Sparisjóður Árneshrepps Sparisjóði Strandamanna. Sjóðurinn er því á meðal elstu fjármálafyrirtækja í landinu. Lengst af var starfsemin á heimili gjaldkera og þar af í rúma fimm áratugi á Kirkjubóli. Árið 1998 keypti sparisjóðurinn húsnæði Íslandspósts á Hólmavík og flutti starfsemina þangað.

Sparisjóður Strandamanna er nú með afgreiðslur á Hólmavík og á Norðurfirði. Býður hann upp á heildarlausnir í fjármálum einstaklinga og fyrirtækja með áherslu á persónulega þjónustu. Auk þess annast hann afgreiðslu fyrir Íslandspóst á Hólmavík og hefur umboð fyrir Sjóvá Almennar tryggingar hf.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga