Ærslabelgur á Hvammstanga. Ljósm. hunathing.is.
Ærslabelgur á Hvammstanga. Ljósm. hunathing.is.
Fréttir | 04. ágúst 2018 - kl. 03:05
Ærslabelgur settur upp á Hvammstanga

Búið er að setja upp ærslabelg á Hvammstanga og verður hann blásinn upp á daginn yfir sumartímanna en liggur svo í dvala yfir veturinn. Áður en að uppsetningu kom voru nokkrar staðsetningar skoðaðar með tilliti til ýmissa þátta s.s. landfræðilegra, aðgengis og nýtingar. Það þótti vert að prófa að koma belgnum fyrir miðsvæðis á Hvammstanga á svæði milli grunn- og leikskóla og vera með því í góðum tengslum við skóla- og leiksvæði. Belgurinn mun nýtast vel bæði fyrir frístundaheimili og leikskóla yfir sumartímann, auk þess að vera miðsvæðis í kauptúninu og í fallegu umhverfi, að því er segir á vef Húnaþings vestra.

Þar eru einnig skilaboð til foreldar: „Mikilvægt er að foreldrar og börn hafi það í huga að hoppubelgurinn er eign okkar allra og við hjálpumst við það í sameiningu að ganga vel um og fara eftir reglum. Allir eru á eigin ábyrgð á hoppubelgnum - Börn og ungmenni eru á ábyrgð forráðamanna. Skóbúnað skal geyma fyrir utan belginn á meðan hoppað er. Ekki er leyfilegt að hoppa á belgnum í skóm. Í rigningu og bleytu er ekki æskilegt að hoppa á belgnum, þar sem hann getur orðið mjög sleipur. Halda skal svæðinu snyrtilegu. Muna að taka allt með sér þegar farið er; föt, sokka og rusl. Sýna hvort öðru tillitssemi og virðingu á belgnum. Hoppubelgurinn verður uppblásinn frá hádegi til kl. 20:00, alla daga í sumar.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga