Brimill HU 18. Ljósm: sealwatching.is.
Brimill HU 18. Ljósm: sealwatching.is.
Fréttir | 13. ágúst 2018 - kl. 14:52
Selaskoðunarferðir vinsælar á Hvammstanga

Að jafnaði hafa um tvö þúsund ferðamenn sótt í selaskoðunarferðir á sumrin hjá Selasiglingu ehf. á Hvammstanga. Félagið gerir út Brimil HU 18 sem er 24 tonna eikarbátur og getur hann flutt allt að 30 ferðamenn í einu að sellátrum í Miðfirði. Ferðin út í sellátrin tekur 15 mínútur og alls tekur ferðin um eina og hálfa klukkustund. Ferðirnar hefjast 15. maí og standa út september. Farnar eru þrjár ferðir á dag þegar veður leyfir. Sagt er frá þessu í Fiskifréttum.

Rætt er við Eðvald Daníelsson, framkvæmdastjóra Selasiglinga en hann réðst í þetta verkefni ásamt fleirum árið 2010 og eru skoðunarferðirnar nú fastur liður í afþreyingu fyrir ferðamenn á Hvammstanga. Eðvald segir að reksturinn hafi verið heilmikið barátta því gengið sé alltaf á uppleið. Hann segir að langstærsti hluti viðskiptavina séu erlendir ferðamenn og að það taki langan tíma að byggju upp starfsemi af þessu tagi. Hann segir aukningu hafa orðið á farþegafjölda í sumar.

„Við erum svo lánsamir að hér í Miðfirðinum eru selalátur sem gera þennan rekstur mögulegan því það yrði of langt að fara héðan út með Vatnsnesi. Til þess hefði líka þurft stærri bát. Þegar við byrjuðum 2010 voru um 90 dýr í sellátrunum en síðan fækkaði þeim alveg niður í um 60 dýr. Nú er svo komið að undanfarin tvö til þrjú ár er hópurinn aftur kominn upp í um 90 seli. Sveiflan hér er því ekki einungis niður á við heldur farið upp aftur,“ segir Eðvald í samtali við Fiskifréttir.

Sjá nánar viðtalið við Eðvald á vef Fiskifrétta.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga